Innlent

„Það er ekki kosningin sem skiptir máli heldur hvernig talið er upp úr kössunum“

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Helga Vala Helgadóttir segir málið mjög alvarlegt.
Helga Vala Helgadóttir segir málið mjög alvarlegt. Vísir/Elín Guðmunds

Helga Vala Helgadóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík norður, setti fram færslu á Twitter í kvöld með fullyrðingunni: „Það er ekki kosningin sem skiptir máli heldur hvernig talið er upp úr kössunum". Hún kveðst hafa komist að þessum sannleik í kosningaeftirliti sínu í Hvíta-Rússlandi fyrir nokkrum árum.

Innt eftir skýringum á því hvort hún sé að rengja niðurstöður kosninganna hér á Íslandi eftir endurtalningu í Norðvesturkjördæmi segir hún færsluna hafa verið setta fram meira í gríni en alvöru.

„Ég er að segja þetta með góðlátlegu gríni en þó með alvarlegum undirtón. Við verðum auðvitað að vanda okkur við þetta fyrirkomulag okkar og það er skrýtið ef það er rétt sem er að koma fram að atkvæði hafi verið skilin eftir óinnsigluð og undir engu eftirliti áður en endurtalningin fór fram,“ segir hún.

Helga Vala bætist þannig í hóp þeirra sem hafa gagnrýnt endurtalninguna en eftir hana hliðruðust jöfnunarsæti þingmanna til í öllum kjördæmum nema einu og var þingmannamyndin allt í einu orðin allt önnur núna rétt fyrir kvöldmat heldur en var í morgun þegar meintar lokatölur höfðu verið staðfestar. 

Magnús Davíð Norðdahl, oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi, hefur farið fram á að kosningin verði endurtekin í kjördæminu og þá hafa bæði Guðmundur Gunnarsson, oddviti Viðreisnar í sama kjördæmi, og Karl Gauti Hjaltason, oddviti Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi gagnrýnt málið í heild sinni og dregið trúverðugleika endurtalningarinnar í efa.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.