Innlent

Ó­lík­ar rík­is­stjórn­ir í boði

Samúel Karl Ólason skrifar
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, á kjörstað á Akureyri.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, á kjörstað á Akureyri.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, vonast til þess að ríkisstjórnin falli og ný stjórn jafnaðarmanna verði mynduð. Hann segir kvöldið leggjast ágætlega í sig.

Veðurspáin fyrir kjördag leit ekki vel út fyrr í vikunni og Logi taldi ekki víst að hann kæmist norður á land. Því kaus hann utan kjörfundar fyrr í vikunni. Það rættist þó ekki úr veðurspám og Logi dreif sig norður þar sem hann greiddi aftur atkvæði í morgun.

„Það var tilvalið að kjósa aftur, því mér finnst alltaf dálítið hátíðlegt að mæta á staðinn,“ sagði Logi í samtali við fréttastofu. „Þetta er bara eins og dagurinn er búinn að vera hjá mér frá því ég var átján ára. Ég klæði mig upp, fer og kýs og heimsæki svo minn flokk í kosningakaffi.“

Sjá einnig: Logi Einarsson búinn að greiða atkvæði

Undir kvöld mun Logi stíga um borð í flugvél og fljúga aftur til Reykjavíkur. Þar verður hann með sínu fólki.

Logi segir kvöldið leggjast ágætlega í sig. Hann segir meðlimi Samfylkingarinnar hafa gert eins og þau geta til að koma þeirra boðskap á framfæri og núna sé að sjá hvort það dugi til.

„Ég er svona hóflega bjartsýnn. Mér fannst vera meðbyr með okkur. Auðvitað veit maður aldrei, þannig að nú er lítið annað að gera en að treysta á það að einhver innistæða sé fyrir þessu.“

Þá segir Logi að honum þyki kosningarnar spennandi. Það séu skírar línur.

„Annaðhvort verður áframhaldandi ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum eða ný stjórn með jafnaðarmönnum. Það verða töluvert ólíkar stjórnir.“

Logi segir hans helstu ósk að ríkisstjórnin falli, svo hægt verði að mynda nýja ríkisstjórn frá miðju til vinstri.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.