Innlent

Ný Maskínukönnun: Ríkisstjórnin nær til sín tveimur þingmönnum og heldur velli

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, getur leyft sér að brosa. Fylgi Framsóknar er komið í 15,4 prósent samkvæmt Maskínukönnun og flokkurinn sá næststærsti.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, getur leyft sér að brosa. Fylgi Framsóknar er komið í 15,4 prósent samkvæmt Maskínukönnun og flokkurinn sá næststærsti. Vísir/Vilhelm

Framsóknarflokkurinn mælist með 15,4 prósenta fylgi í nýrri Maskínukönnun fyrir fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar. Fyrir vikið fengi flokkurinn ellefu þingmenn og er næststærsti flokkur landsins.

Vinstri græn tapa einum þingmanni á milli kannana, Sjálfstæðisflokkur fengi fimmtán þingmenn svo samanlagður þingmannafjöldi ríkisstjórnaflokkanna væri 32 þingmenn. Minnsti mögulegi meirihluti.

Könnun Maskínu var gerð dagana 22. til 24. september og lögð fyrir 5548 manns sem dregin voru með tilviljun úr Þjóðskrá. Svarendur eru alls staðar að af landinu á aldrinum átján ára og eldri.

Í Maskínukönnun sem gerð var dagana 15. til 22. september, og fréttastofa fjallaði um í gær, fékk ríkisstjórnin 31 þingmann og væri því fallin yrðu það niðurstöður kosninga.

Sjálfstæðiflokkurinn mælist nú með 21,4 prósenta fylgi og næði 15 þingmönnum. Framsókn heldur áfram að auka fylgi sitt og mælist nú með 15,4 prósenta fylgi. Í þriðja sæti er Samfylkingin með 13,8 prósenta fylgi sem gæfi flokknum átta þingmenn.

Vinstri græn, Píratar og Viðreisn mælast með yfir tíu prósenta fylgi sem gæfi hverjum flokki fyrir sig sex þingmenn. Vinstri græn fengu 16,9 prósent í síðustu kosningum og falla því verulega verði niðurstaðan í líkingu við könnunina.

Sósíalistar og Flokkur fólksins mælast með rúmlega sex prósenta fylgi sem gæfi fjóra þingmenn. Miðflokkurinn fengi þrjá þingmenn með fylgi upp á 5,5 prósent.

Litlu munar á nokkrum þingmönnum og því gætu einstaka þingsæti færst milli flokka með mjög litlum breytingum á fylgi. 

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn er með innan við 1% fylgi og næði því ekki manni inn á þing.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.