Innlent

Sýndi mikinn skapofsa og hrækti í andlit starfsmanns

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Maðurinn lét öllum illum látum.
Maðurinn lét öllum illum látum. Vísir/Vilhelm

Karlmaður sem rauf einangrun vegna Covid-19 sýndi starfsmönnum farsóttarhúss mikinn skapofsa og hrækti í andlit starfsmanns þar hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald. Lögregla er með fjölmörg mál tengd manninum til meðferðar.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð að farsóttarhúsinu þann 16. september og handtók þar mann í mjög annarlegu ástandi. Maðurinn var vistaður í fangageymslu en hann er grunaður um líkamsárás og eignarspjöll.

Lögregla krafðist gæsluvarðhalds yfir manninum sem staðfest var af Landsrétti í gær. Í úrskurði Landsréttar segir einnig að maðurinn hafi verið greindur með Covid-19 þann 9. september og hafi því rofið einangrun.

Veigri sér ekki við að fremja ítrekuð brot

Í úrskurðinum segir að starfsfólk farsóttarhúss Foss hótels hafi tilkynnt hann til lögreglu þann 16. september að maðurinn væri órólegur og hefði brotið einangrun deginum áður. Í tilkynningunni kom fram að maðurinn hefði sýnt starfsfólki og öðrum gestum sóttvarnarhúss mikinn skapofsa, meðal annars hrækt í andlit starfsmanns, og væri almennt óútreiknanlegur í hegðun

Lögregla er með sautján mál til rannsóknar sem tengjast manninum, þar á meðal þjófnað, húsbrot, líkamsárás, rán, skjalafals og fjársvik, heimilisofbeldi og sölu, dreifingu og vörslu á ávanabindandi fíkniefnum.

Í greinargerð lögreglu vegna málsins segir að maðurinn hafi sýnt af sér grófa og ofbeldisfulla hegðun og að hann veigri sér ekki við að fremja ítrekuð brot.

Héraðsdómur og Landsréttur tóku undir rök lögreglu í málinu og þarf maðurinn að sitja í gæsluvarðhaldi til 15. október næstkomandi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.