Fótbolti

„Vonandi verður þetta bara passlegt, gott, íslenskt veður“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Landsliðsþjalfarinn liggur ekki yfir veðurspánni.
Landsliðsþjalfarinn liggur ekki yfir veðurspánni. stöð 2

Veðrið er Þorsteini Halldórssyni, þjálfara íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, ekki efst í huga fyrir leikinn gegn Hollandi í undankeppni HM 2023 annað kvöld.

Spáin fyrir morgundaginn er ekki góð en það truflar Þorstein lítið.

„Veðurspáin var ekkert sérstök fyrir æfinguna í dag. Veðrið átti að versna eftir því sem leið á æfinguna en það lagaðist. Þetta er bara líkindareikningur hjá veðurfræðingunum og þeir klúðruðu einhverju. Ég get ekki svarað til um morgundaginn,“ sagði Þorsteinn léttur.

„Þetta lítur ekkert ofboðslega vel út, ég skal viðurkenna það. En miðað við hvernig hlutirnir þróuðust núna og svo á lægðin að koma yfir seinna í dag er ég ekkert að hafa áhyggjur af því núna. Vonandi verður þetta bara passlegt, gott, íslenskt veður.“

Þorsteinn var svo spurður hvort slæmar veðuraðstæður kæmu íslenska liðinu vel.

„Ég veit ekki hvort Hollendingar séu mjög vanir því að spila í vondu veðri. Flestar eru held ég að spila við ágætis aðstæður. En flestallir leikmennirnir okkar spila líka erlendis. Þær eru kannski aldar upp við ýmislegt en vanar góðum veðuraðstæðum undanfarið,“ sagði Þorsteinn.

„Það er eitthvað sem maður tæklar bara á morgun. Veðurfréttamennirnir hafa oft klikkað og er ekki í þessari djúpu pælingu eins og er. Ég var aðallega að spá í æfinguna áðan, hvað við gætum gert. En veðrið var bara frábært. Ég hef engar áhyggjur af veðrinu eins og staðan er í dag.“

Leikur Íslands og Hollands hefst klukkan 18:45 á morgun. Þetta er fyrsti keppnisleikur íslenska liðsins undir stjórn Þorsteins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×