Innlent

Kvista­borgar­börn í Safa­mýrar­skóla næstu mánuði vegna raka­skemmda

Atli Ísleifsson skrifar
Kvistaborg er til húsa við Kvistaland í Fossvogi. Á heimasíðu leikskólans segir að um sé að ræða fjögurra deilda leikskóli þar sem dvelja 74 börn samtímis.
Kvistaborg er til húsa við Kvistaland í Fossvogi. Á heimasíðu leikskólans segir að um sé að ræða fjögurra deilda leikskóli þar sem dvelja 74 börn samtímis. Reykjavíkurborg

Starfsemi leikskólans Kvistaborg í Fossvogi færist tímabundið í Safamýrarskóla næstu mánuði vegna framkvæmda sem framundan eru í húsnæði leikskólans vegna rakaskemmda og uppfærslu á húsnæði leikskólans.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg, en starfsemin færist í Safamýrarskóla frá og með þriðjudeginum í næstu viku, 21. september. Vonast sé til að skólastarfið færist aftur í Fossvogsdalinn fyrir jól.

„Flutningur starfseminnar og fyrirhugaðar framkvæmdir voru kynntar fyrir starfsfólki og foreldrum á fundum í [gærkvöldi]. Þar kom fram að verkfræðistofan Efla mælir með að farið verið í gagngerar endurbætur á elsta hluta skólans sem byggður var 1972 og hentar illa starfi nútíma leikskóla. Ákveðið var að flytja alla starfsemi skólans tímabundið í Safamýri 5 sem áður var Safamýrarskóli til að hægt verði að fara í undirbúning framkvæmda á meðan unnið er að hönnun og skipulagningu verksins.

Í sumar og haust hefur verið unnið að því að undirbúa húsnæði í vestur hluta Safamýrarskóla svo hægt sé að taka við allri starfsemi Kvistaborgar. Þar var áður grunnskóli og góð aðstaða fyrir börn í leik og námi, til að mynda stór leikfimisalur sem mun nýtast starfinu vel næstu mánuði. Framundan eru framkvæmdir við austurhluta Safamýrarskóla en þar verður nýr leikskóli opnaður á næsta ári.

Haldinn verður starfsdagur á Kvistaborg mánudaginn 20. september til að auðvelda flutning á leiktækjum og öðrum munum og mun leikskólinn opna á ný í Safamýrarskóla þriðjudaginn 21. september. Stefnt er að því að starf leikskólans flytji aftur í Fossvog fyrir jól,“ segir í tilkynningunni.

Tæplega fjögurra kílómetra leið er milli Kvistaborgar og Safamýrarskóla.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×