Erlent

Hitti móður sína aftur eftir 14 ára að­skilnað

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Fagnaðarfundir hjá mæðgunum.
Fagnaðarfundir hjá mæðgunum. Lögreglan í Clermont

Ung kona frá Flórída í Bandaríkjunum hitti móður sína í gær, í fyrsta sinn í 14 ár. Faðir hennar er sagður hafa rænt henni og farið með hana til Mexíkó árið 2007. Hún hafði samband við móður sína í gegnum Facebook á dögunum.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að hin 19 ára gamla Jacqueline Hernandez og móðir hennar, Angelica Venxes-Salgado, hafi fallist í faðma í fyrsta sinn í 14 ár við landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna í Texas í gær.

Hvarf Hernandez var óupplýst þangað til fyrr í þessum mánuði, þegar hún hafði samband við móður sína í gegnum samfélagsmiðilinn Facebook. Lögregluyfirvöld í Bandaríkjunum hafa staðfest að Hernandez sé raunverulega sú sem hún segist vera.

Faðirinn ófundinn

Talið er að Pablo Hernandez, faðir konunnar, hafi rænt henni af heimili hennar í desember árið 2007. Hún var þá sex ára gömul.

Handtökuskipun á hendur honum var gefin út þar sem lögregluyfirvöld grunaði að hann gæti farið með hana til Mexíkó. Ekki liggur fyrir hvar hinn meinti mannræningi heldur sig.

Það var svo í byrjun þessa mánaðar sem Vences-Salgado hafði samband við lögregluna og lét vita af því að kona sem segðist vera dóttir hennar hefði haft samband við hana á netinu.

Í kjölfarið var sett saman áætlun um að taka á móti Hernandez þar sem hún hafði mælt sér mót við móður sína, til þess að staðfesta að hún væri raunverulega stúlkan sem leitað hafði verið að í 14 ár. Sú reyndist raunin og mæðgurnar hafa verið sameinaðar á ný.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×