Fótbolti

Breiðablik í riðli með PSG og Real Madrid

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nadine Kessler dregur Breiðablik upp úr skálinni.
Nadine Kessler dregur Breiðablik upp úr skálinni. getty/Richard Juilliart

Breiðablik er í riðli með Paris Saint-Germain, Real Madrid og Kharkiv í Meistaradeild Evrópu. Dregið var í höfuðstöðvum UEFA í Nyon í Sviss í dag.

Breiðablik var í öðrum styrkleikaflokki ásamt Lyon, Wolfsburg og Arsenal. Breiðablik fékk Frakklandsmeistara Paris Saint-Germain úr fyrsta styrkleikaflokki, Real Madrid úr þriðja styrkleikaflokki og Kharkiv frá Úkraínu úr fjórða styrkleikaflokki.

Breiðablik og PSG mættust í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar fyrir tveimur árum. Þá vann franska liðið samanlagðan 7-1 sigur.

Úr leik Breiðabliks og PSG haustið 2019.getty/Aurelien Meunier

Þýskalandsmeistarar Bayern München, sem Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Glódís Perla Viggósdóttir leika með, er í D-riðli með Lyon, liði Söru Bjarkar Gunnarsdóttur, Häcken og Benfica. Diljá Ýr Zomers leikur með Häcken og Cloe Lacasse, fyrrverandi leikmaður ÍBV, spilar með Benfica.

Riðlakeppnin hefst 5. október og lýkur 16. desember. Ljóst er að Breiðablik leikur ekki á heimavelli í 6. umferð riðlakeppninnar vegna aðstæðna hér á landi. Enn liggur ekki fyrir hvort Blikar spila heimaleiki sína í riðlakeppninni á Kópavogsvelli eða Laugardalsvelli.

Tvö efstu liðin í hverjum riðli komast í átta liða úrslit. Þau hefjast 22. mars á næsta ári. Dregið verður í útsláttarkeppnina 20. desember.

Riðlarnir

A-riðill

  • Chelsea
  • Wolfsburg
  • Juventus
  • Servette

B-riðill

  • PSG
  • Breiðablik
  • Real Madrid
  • Kharkiv

C-riðill

  • Barcelona
  • Arsenal
  • Hoffenheim
  • Køge

D-riðill

  • Bayern München
  • Lyon
  • Häcken
  • Benfica



Fleiri fréttir

Sjá meira


×