Erlent

Tru­deau í kröppum dansi í sjón­varps­kapp­ræðum

Þorgils Jónsson skrifar
Erin O'Toole, formaður Íhaldsflokksins og  Annamie Paul frá flokki Græningja hlýða á Justin Trudeau, forsætisráðherra og formann Frjálslynda flokksins, í sjónvarpskappræðum í gær. Trudeau boðaði til kosninga í þeirri von að styrkja stöðu sína á þingi, en vopnin virðast hafa snúist í höndunum á honum.
Erin O'Toole, formaður Íhaldsflokksins og  Annamie Paul frá flokki Græningja hlýða á Justin Trudeau, forsætisráðherra og formann Frjálslynda flokksins, í sjónvarpskappræðum í gær. Trudeau boðaði til kosninga í þeirri von að styrkja stöðu sína á þingi, en vopnin virðast hafa snúist í höndunum á honum. Mynd/AP

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, lenti í harðri sennu í sjónvarpskappræðum flokksformanna í gær, en þingkosningar fara fram þar í landi eftir tíu daga. Trudeau, sem hefur setið í stóli forsætisráðherra í sex ár, rauf óvænt þing í síðasta mánuði og boðaði til kosninga tveimur árum fyrr en ráðgert var. Þetta gerði hann í ljósi góðrar stöðu hans og Frjálslynda flokksins í skoðanakönnunum.

Síðustu tvö ár hefur Trudeau farið fyrir minnihlutastjórn sem reiðir sig á stuðning vinstri flokka, en vonir stóðu til þess að almenn ánægja kanadískra kjósenda með viðbrögð stjórnar hans í Covid-16 faraldrinum myndi tryggja honum hreinan meirihluta á þingi.

Eitthvað snerust vopnin í höndunum á Trudeau, því útspilið þótti mörgum bera vott um tækifærismennsku og ábyrgðarleysi, þar sem mannsöfnuður á kjörstöðum færi ekki vel saman við sóttvarnir í heimsfaraldri.

Trudeau var meðal annars gagnrýndur fyrir aðgerðarleysi í loftslagsmálum og málefnum frumbyggja, en háði hörðustu rimmuna við formann Íhaldsflokksins, Erin O‘Toole.

Sem stendur er Íhaldsflokkurinn með naumt forskot í skoðanakönnunum, 33% á móti 30% Frjálslynda flokksins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×