Innlent

Varði á fimmtu milljón króna úr eigin vasa í baráttuna við Áslaugu Örnu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðlaugur Þór fékk 3.508 atkvæði á móti 3.326 atkvæðum Áslaugar Örnu í baráttunni um fyrsta sætið í Reykjavík.
Guðlaugur Þór fékk 3.508 atkvæði á móti 3.326 atkvæðum Áslaugar Örnu í baráttunni um fyrsta sætið í Reykjavík. Vísir/vilhelm

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra varði rúmum ellefu milljónum króna í baráttunni um efsta sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í sumar. Þar hafði hann betur eftir harða baráttu við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra.

Eins og fram kom á Vísi í vikunni varði Áslaug Arna tæpum níu milljónum króna í sitt prófkjör. Um fjórar milljónir fóru í starfsmannahald en 2,7 milljónir króna fóru í auglýsingar og kynningarkostnað. Rekstur kosningaskrifstofu Áslaugar nam 1,6 milljónum króna.

Rekstur kosningaskrifstofu Guðlaugs Þórs nam 6,4 milljónum króna og þá fóru 4,7 milljónir króna í auglýsingar og kynningarkostnað. Guðlaugur birti uppgjör framboðs síns í gær.

Framlög lögaðila til framboðs Guðlaugs Þórs námu 2,8 milljónum króna en framlög einstaklinga 4,1 milljón króna. Sjálfur lagði Guðlaugur Þór 4,5 milljónir króna í framboð sitt en Áslaug ekki krónu.

Hraðfrystihús Hellissands var á meðal þeirra félaga sem töldu hag sinn fólginn í því að Guðlaugur yrði í fyrsta sæti í Reykjavík.

Hæstu framlögin til framboðs Guðlaugs Þórs komu frá T22 ehf, félagi í eigu hjónanna Sigþórs Einarssonar og Sigrúnar Guðmundsdóttur, sem lögðu til 400 þúsund krónur. Það gerði Benedikt Gísli Guðmundsson líka í gegnum félag sitt Bíla og fólk ehf.. 400 þúsund krónur er hæsta fjárhæð sem má leggja til framboða.

Viggó Einar Hilmarsson og Elín Jóhannesdóttir veittu 300 þúsund krónum í framboðið í gegnum félagið Viel ehf.

Þá gáfu 24 einstaklingar samanlagt 4,1 milljón króna í framboðið.

Barátta Áslaugar Örnu og Guðlaugs Þórs var virkilega hörð þar sem framboð Guðlaugs Þórs gerði athugasemdir við hegðun bróður Áslaugar sem starfaði við framboðið. Kjörstjórn komst að þeirri niðurstöðu að engar reglur hefðu verið brotnar. Sigurræða Guðlaugs Þórs þegar sigurinn var í höfn vakti mikla athygli.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×