Fótbolti

Ákvörðun um Kolbein tekin í næstu viku

Sindri Sverrisson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson hefur átt fast sæti í liði Gautaborgar á leiktíðinni en spilar tæplega með liðinu um helgina.
Kolbeinn Sigþórsson hefur átt fast sæti í liði Gautaborgar á leiktíðinni en spilar tæplega með liðinu um helgina. Getty/Michael Campanella

Rannsókn sænska knattspyrnufélagsins IFK Gautaborg á máli Kolbeins Sigþórssonar ætti að ljúka í byrjun næstu viku og þá skýrist hvort hann á sér framtíð hjá félaginu.

Þetta segir í frétt á vef Fotboll Direkt í Svíþjóð. Kolbeinn var í síðustu viku tekinn út úr liði Gautaborgar og hefur ekki mátt æfa með félaginu, í kjölfar upplýsinga um að tvær konur hefðu sakað um að hafa beitt þær ofbeldi á skemmtistað í Reykjavík haustið 2017.

Kolbeinn sagði í yfirlýsingu að hann kannaðist ekki við að hafa áreitt konurnar en að hegðun sín gagnvart þeim hefði þó ekki verið til fyrirmyndar. Hann greiddi konunum miskabætur.

Þar til að niðurstaða fæst í rannsókn Gautaborgar getur Kolbeinn hvorki æft né spilað með liðinu og samkvæmt frétt FD verður hann því ekki með gegn Halmstad í sænsku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.

Magnus Erlingmark, framkvæmdastjóri leikmannasamtakanna í Svíþjóð, hefur sagt að ef Kolbeinn verði rekinn þá geti hann átt heimtingu á háum skaðabótum.

Samkvæmt FD eru engar vísbendingar um það hvort að stjórn Gautaborgar ætli sér að halda Kolbeini eða reka hann. Báðir kostir skaði félagið. Miðillinn segir að framherjinn sé miður sín yfir stöðunni.

Kolbeinn hefur leikið alla sautján deildarleiki Gautaborgar á leiktíðinni og skorað fjögur mörk.

Kolbeinn var, samkvæmt ákvörðun fráfarandi stjórnar KSÍ, tekinn út úr íslenska landsliðshópnum sem mætti Rúmeníu, Norður-Makedóníu og Þýskalandi í undankeppni HM á síðustu dögum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.