Innlent

Brugðið eftir alvarlegar hótanir

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Baldur Borgþórsson varaborgarfulltrúi Miðflokksins lét lögreglu vita af alvarlegum hótunum í sinn garð á þriðjudag.
Baldur Borgþórsson varaborgarfulltrúi Miðflokksins lét lögreglu vita af alvarlegum hótunum í sinn garð á þriðjudag. Vísir

Varaborgarfulltrúi Miðflokksins sætti alvarlegum hótunum af hálfu sama manns og er grunaður um að hafa skotið á bíl borgarstjóra fyrr á árinu á þriðjudag. Sérsveit ríkislögreglustjóra vaktaði Ráðhús Reykjavíkur meðan borgarstjórnarfundur stóð yfir vegna hótananna. 

Baldur Borgþórsson varaborgarfulltrúi Miðflokksins hringdi í neyðarnúmer ríkislögreglustjóra eftir að honum bárust alvarlegar hótanir á þriðjudaginn. 

„Þetta er er aðili, sem hefur verið að hringja í mig nokkrum sinnum og brá nú á það ráð að fara dýpra ofan í málin. Þetta leiddi til þess að ég hringdi í ríkislögreglustjóra eins og við eigum að gera ef við lendum í áreiti, við sem erum fulltrúar þarna niðri í ráðhúsi. Það var það sem ég þurfti að grípa til á þriðjudaginn.“ 

Baldur staðfestir að um sama mann sé að ræða og er grunaður um að hafa skotið á bíl borgarstjóra og höfuðstöðvar nokkurra stjórnmálaflokka fyrr á árinu. Aðspurður um hvers kyns hótun hafi verið að ræða segir Baldur:

„Atvikin voru bara þess eðlis að ég taldi fulla ástæðu til að hafa áhyggjur af þróun mála.“

 Hann segist hafa fengið mjög góða þjónustu hjá lögreglu og ráðgjöf í framhaldinu. Baldur segir óþægilegt að lenda í svona. 

„Þó að maður sé nú ágætlega á sig kominn þá er maður nú ekki skotheldur.  Þetta var óþægilegt og ekki það sem maður óskar eftir,“ segir hann, 

Baldur segist ekki vera með sérstaka gæslu frá lögreglu eftir atvikið.

„En maður kíkir í kringum sig og vonar að fólk sem er í svona miklu ójafnvægi fái viðeigandi aðstoð,“ segir Baldur að lokum. 

Fréttastofa hefur fengið staðfest að sérsveit ríkislögreglustjóra hafi vaktað Ráðhús Reykjavíkur á meðan á borgarstjórnarfundi stóð þar síðasta þriðjudag. Fréttablaðið greindi fyrst frá. 

Þá herma heimildir fréttastofu að á meðan á fundinum stóð hafi borgarfulltrúum  verið tilkynnt að þeir mættu ekki fara einir úr húsi að loknum fundi. 

Heimildir fréttastofu herma að eftir þessa uppákomu hafi lögreglan á höfuðborgarsvæðinu verið beðin um að taka upp að nýju óformlegt eftirlit með húsi borgarstjóra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×