Fótbolti

Van Gaal ekki hrifinn af For­múlu 1: „Bara mieeeeuw, mieeeeuw“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Louis van Gaal hefur engan áhuga á að horfa á Formúlu 1 og viðraði þá skoðun við leikmenn sína á æfingu hollenska landsliðsins.
Louis van Gaal hefur engan áhuga á að horfa á Formúlu 1 og viðraði þá skoðun við leikmenn sína á æfingu hollenska landsliðsins. EPA-EFE/GERRIT VAN KEULEN

Hinn sjötugi Louis van Gaal, þjálfari hollenska landsliðsins í fótbolta, er ekki hrifinn af Formúlu 1 þó svo að einn besti ökumaður heims um þessar mundir sé Hollendingur.

Max Verstappen vann sigur á Zandvoort-brautinni í Hollandi um helgina og tók þar með forystuna í stigakeppni ökumanna um heimsmeistaratitilinn. Hann er nú þremur stigum á undan Lewis Hamilton.

Í myndbandi af æfingu liðsins má sjá er Van Gaal kemur að Frenkie De Jong, miðjumanni hollenska landsliðsins og Barcelona, þar sem hann virðist hafa verið að ræða sigur Verstappen og áhuga sinn á Formúlu 1 við liðsfélaga sína.

Van Gaal var ekki sama sinnis og virðist ekki hafa mikinn áhuga á kappakstri eins og heyra má í kostulegu myndskeiði hér að neðan.

„Finnst þér þetta virkilega skemmtilegt, kappakstur? Mér finnst það ekki, ég horfi ekki einu sinni á þetta. Alltaf bara: mieeeuw, mieeeuw,“ sagði Van Gaal með tilþrifum.

Sama hvað Van Gaal finnst um áhorf De Jong á kappakstur þá má reikna með að leikmaðurinn verði í byrjunarliði Hollands er Tyrkir mæta í heimsókn á Johan Cruyff-leikvanginn í Amsterdam í kvöld. Um er að ræða toppslag G-riðils í undankeppni HM 2022.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.