Innlent

Þurfti að stöðva viðtal vegna umferðarlagabrots fyrir framan nefið á lögreglu

Snorri Másson skrifar
Hæ, þetta er göngugata, segir skiltið. En það er ekki alveg að skila sér.
Hæ, þetta er göngugata, segir skiltið. En það er ekki alveg að skila sér. Stöð 2/Egill

Það ríkir ákveðið stjórnleysi á göngugötunni á Laugavegi á milli Klapparstígs og Frakkastígs. 

Eins og orðið göngugata kveður á um má ekki keyra götuna nema inn á baklóðir hjá heimilum eða með vörur á morgnana, og sömuleiðis fá fatlaðir undanþágu. Þrátt fyrir þessar reglur falla langflestir ökumenn á kaflanum ekki undir þessa flokka. Og þeir streyma í stríðum straumum upp og niður götuna.

Ökumennirnir eru mest megnis venjulegt fólk sem fattar ekki að það megi (alls) ekki aka niður þennan kafla og ekki aka upp hann nema í vöruflutningum á sérstökum tíma.

Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir ástandið hvimleitt en segir að á meðan einhvers konar hliði sé ekki komið fyrir við götuna, sé engin önnur lausn á vandanum en stanslaus fræðsla.

Árni Friðleifsson aðalvarðstjóri. Lögregla þarf að hafa stöðugt eftirlit með göngugötunni á Laugavegi, af því að fæstir skilja reglurnar, og ótækt er að loka götunni alveg.Stöð 2/Egill

Umferðarmerki eru til staðar en ljóst er að þau fanga ekki athygli allra. Borgaryfirvöld hafa veigrað sér við að loka götunni alveg vegna aðgengismála. 

Niðurstaðan er þvílíkt vandræðaástand á þessum tvennum gatnamótum að fréttastofa gat vart klárað viðtal við lögregluþjóninn án þess að ökumenn reyndu, vafalítið í flestum tilvikum í góðri trú, að keyra inn á göngugötuna. Í myndbandi hér að ofan má fylgjast með því þegar Árni þarf að grípa inn í.

Sektin sem lögregla beitir vegna aksturs um götuna nemur 20.000 krónum og hafa tugir ökumanna þurft að draga upp veskið af þeim sökum frá því að kaflinn varð varanleg göngugata hér um árið.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.