Fótbolti

Amanda valin í landsliðið og Sif snýr aftur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Amanda Jacobsen Andradóttir gæti leikið sinn fyrsta A-landsleik síðar í þessum mánuði.
Amanda Jacobsen Andradóttir gæti leikið sinn fyrsta A-landsleik síðar í þessum mánuði. Vålerenga

Amanda Jacobsen Andradóttir er í íslenska landsliðshópnum sem mætir Evrópumeisturum Hollands í undankeppni HM 2023.

Þetta er í fyrsta sinn sem Amanda er valin í landsliðið en hún getur einnig spilað fyrir Noreg og hefur verið í yngri landsliðum þar. Amanda hefur leikið tólf leiki fyrir yngri landslið Íslands og skorað tíu mörk.

Amanda, sem er sautján ára, leikur með Noregsmeisturum Vålerenga og þykir mikið efni. Hún er dóttir Andra Sigþórssonar, fyrrverandi landsliðsmanns.

Sif Atladóttir kemur aftur inn í landsliðið eftir nokkra fjarveru. Síðasti landsleikur hinnar 36 ára Sifjar var gegn Lettlandi í október 2019. Guðný Árnadóttir og Hlín Eiríksdóttir koma einnig aftur inn í landsliðið eftir meiðsli.

Ísland mætir Hollandi á Laugardalsvellinum 21. september. Þetta er fyrsti leikur Íslands í undankeppni HM og jafnframt fyrsti keppnisleikurinn undir stjórn Þorsteins. Auk Íslands og Hollands eru Tékkland, Kýpur og Hvíta-Rússland í riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×