Leikur Brasilíu og Argentínu var stöðvaður eftir rúmlega sex mínútna leik þegar starfsmenn heilbrigðisyfirvalda komu inn á völlinn ásamt lögreglumönnum til að skikka þrjá byrjunarliðsmenn Argentínu í sóttkví, auk eins sem var utan leikmannahóps liðsins.
Samkvæmt sóttvarnarreglum í Brasilíu ber þeim sem koma frá Bretlandi að fara í sóttkví við komu til landsins.
Giovani Lo Celso og Cristian Romero, úr Tottenham, og Emiliano Martínez og Emiliano Buendía, úr Aston Villa, áttu því að fara í sóttkví við komuna til Brasilíu. Heilbrigðisyfirvöld skipuðu þeim að yfirgefa landið í kvöld.
Lionel Messi to Brazilian health officials: "It's an embarrassment. We have been in Brazil for 3 days and nothing happened."
— Roy Nemer (@RoyNemer) September 5, 2021
Leiknum var aflýst vegna málsins og frestað um óákveðinn tíma. Erlendir miðlar greina frá því að Messi, sem er fyrirliði Argentínu, hafi ekkert skilið í þessu og spurt af hverju heilbrigðisyfirvöld hafi beðið svo lengi með að aðhafast í málinu.
„Þetta er skammarlegt. Við höfum verið í Brasilíu í þrjá daga án þess að nokkuð hafi gerst. Af hverju gerið þið þetta núna?“ er haft eftir Messi.
Sú fullyrðing á hins vegar ekki við rök að styðjast, Argentínumenn hafi verið ósamvinnuþýðir brasilískum stjórnvöldum sem hafi leitt til þess að mál fóru á þann veg.
Brasilískir miðlar greina frá því að fjórmenningarnir hafi logið því við landamærin að hafa ekki verið í Englandi nýverið. Heilbrigðisyfirvöld í Brasilíu hafi svo verið látin vita af því í morgun og strax hafi verið haft samband við argentínsk knattspyrnuyfirvöld.
Knattspyrnuyfirvöld Argentínu og Brasilíu hafi ásamt Concacaf, knattspyrnusambandi Suður-Ameríku, komist að samkomulagi um undanþágu vegna leikmannanna og þeir hafi því mátt spila leikinn.
Heilbrigðisyfirvöld tóku það ekki í mál og segja fréttir frá Brasilíu að fulltrúar þeirra hafi einfaldlega komið seint á völlinn vegna mikillar umferðar í borginni í kringum leikinn.
Við komuna hafi þeim verið sagt frá samkomulagi knattspyrnusambandanna, þegar leikurinn var við það að hefjast, en tekið var fyrir þá ákvörðun og leikmennirnir skikkaðir í sóttkví.