Fótbolti

Birkir Már: Frábært að hafa menn á bekknum sem eru tilbúnir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birkir Már Sævarsson í sínum hundraðasta landsleik í dag.
Birkir Már Sævarsson í sínum hundraðasta landsleik í dag. Vísir/Hulda Margrét

Birkir Már Sævarsson lék sinn hundraðasta landsleik í dag þegar íslenska liðið tryggði sér jafntefli á móti Norður Makedóníu í undankeppni HM með tveimur mörkum undir lokin.

„Það var góður karakter að koma til baka eftir svona lélegar sextíu mínútur. Síðustu tuttugu mínúturnar voru fínar. Fyrri hálfleikurinn var sérstaklega lélegur,“ sagði Birkir Már Sævarsson við Henry Birgi Gunnarsson eftir leikinn.

„Við misstum aldrei trúna. 2-0 forysta er engin forysta því ef maður skorar mark þá er alltaf möguleiki á að ná því. Þetta var frábærlega gert hjá þeim sem komu inn. Þeir hleyptu líf í þetta og þetta var góð innkoma hjá öllum,“ sagði Birkir Már.

„Það er frábært að hafa menn á bekknum sem eru tilbúnir þegar þeir koma inn á. Það sýndi sig í dag því það réð baggamuninn,“ sagði Birkir en af hverju byrjaði íslenska liðið svona illa?

„Það er erfitt að útskýra það svona strax eftir leik. Þetta var lélegt, við vorum langt frá mönnum og pressan gekk engan veginn upp. Spilið gekk engan veginn upp en við tókum bara góðan fund í hálfleik,“ sagði Birkir.

„Við fengum reyndar mark á okkur fljótlega í seinni en það var frábær karakter að koma til baka,“ sagði Birkir sem lék eins og áður sagði sinn hundraðasta leik í kvöld. Hvernig er sú tilfinning?

„Hún er frábær og ég er ótrúlega stoltur. Ég á erfitt ennþá með að trúa þessu, þetta er galið,“ sagði Birkir en það má sjá allt viðtalið hér fyrir neðan.

Klippa: Viðtal við Birki Má Sævarsson

Tengdar fréttir

„Þetta var íslenskur karakter, eitthvað sem við höfum alltaf haft“

Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari Íslands, ræddi við RÚV að loknu 2-2 jafntefli Íslands og Norður-Makedóníu í undankeppni HM sem fram fer í Katar um jólin 2022. Hann tekur á sig slaka byrjun Íslands og hrósaði ungu strákunum sem komu inn af bekknum og breyttu leiknum.

Einkunnir Íslands: Brynjar Ingi stóð upp úr

Íslenska karlalandsliðið gerði 2-2 jafntefli við Norður-Makedóníu í J-riðli undankeppni HM 2022 í kvöld. Brynjar Ingi Bjarnason stóð upp úr í íslenska liðinu að mati Vísis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×