Innlent

Sex fulltrúar V-lista í Norðurþingi óskuðu lausnar undan störfum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Stjórnsýsla Norðurþings er staðsett á Húsavík.
Stjórnsýsla Norðurþings er staðsett á Húsavík. Vísir/Vilhelm

Sex fulltrúar á V-lista Vinstri grænna og óháðra óskuðu lausnar frá störfum á fundi sveitarstjórnar Norðurþings hinn 24. ágúst síðastliðinn. Aldey Traustadóttir er nýr forseti sveitarstjórnar en hún var 9. manneskja á lista framboðsins þegar gengið var til kosninga 2018.

Dagskrá fundarins hófst á því að tekin var fyrir beiðni Óla Halldórssonar, efsta manns V-lista, sem óskaði eftir lausn frá störfum af persónulegum ástæðum. Þar á eftir var síðan gengið á röðina og teknar fyrir fimm aðrar beiðnir um lausn, þar til komið var að Aldey. 

Tveir á listanum voru þegar fluttir úr sveitarfélaginu.

Vegna rafmagnsleysis er ekki til upptaka af fundinum. 

Meðal þeirra sem baðst frá störfum var Kolbrún Ada Gunnarsdóttir, sem var forseti bæjarstjórnar. Þegar Vísir náði tali af henni sagðist hún vera nýtekin við störfum sem skólastjóri, sem gerði hana mögulega vanhæfa til að sitja áfram.

Hvað aðra varðaði sagði hún ekki um að ræða pólitískan ágreining eða eitthvað vafasamt; allir hefðu haft sínar persónulegu ástæður og þá ætti listinn aðeins einn fulltrúa í bæjarstjórn og starfið því töluvert umfangsmikið.

„Fólk er bara í mismunandi persónulegum aðstæðum og getur ekki tekið þetta verkefnið að sér og sinnt því eins og það vill,“ sagði Kolbrún. „Þetta er mikið fyrir einn að taka að sér en fólk situr áfram í nefndum og það breytist ekki.“

Samhliða því að taka við embætti forseta bæjarstjórnar verður Aldey fulltrúi V-lista í fimm ráðum og nefndum en varamaður hennar verður Guðrún Sædís Harðardóttir, sem skipaði 10. sæti á V-lista í kosningunum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.