Innlent

Þorsteinn nýr formaður Kærunefndar útlendingamála

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þorsteinn Gunnarsson hefur starfað hjá Útlendingastofnun frá árinu 2007.
Þorsteinn Gunnarsson hefur starfað hjá Útlendingastofnun frá árinu 2007. Vísir

Þorsteinn Gunnarsson er nýr formaður Kærunefndar útlendingamála að skipan Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra. Þorsteinn tekur við embættinu þann 1. september en hann var valinn úr sjö manna hópi umsækjenda. Hann hefur starfað í fjórtán ár hjá Útlendingastofnun, meðal annars sem settur forstjóri.

Fram kemur í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu að Þorsteinn hafi útskrifast með embættispróf í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands 2007. Hann hóf störf hjá Útlendingastofnun sem lögfræðingur sama ár. Hann tók við forstöðu hælissviðs stofnunarinnar árið 2008, var sviðsstjóri leyfasviðs frá 2011, ásamt því að vera staðgengill forstjóra Útlendingastofnunar. 

Frá 2016 hefur hann starfað sem sviðsstjóri verndarsviðs og staðgengill forstjóra. Frá október 2019 til 31. mars 2020 var Þorsteinn settur forstjóri Útlendingastofnunar.

Kærunefnd útlendingamála er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem hefur það hlutverk að rannsaka og úrskurða í kærumálum sem falla undir útlendingalög, einkum hvað varðar dvöl og búsetu útlendinga hér á landi og rétt til alþjóðlegrar verndar. Hjá nefndinni starfa 19 manns. 

Nefndin hefur ekki með höndum umönnun umsækjenda um alþjóðlega vernd og framkvæmd úrskurða nefndarinnar er í höndum Útlendingastofnunar og Ríkislögreglustjóra.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.