Innlent

Sveik út vörur og þjónustu í gegnum reikninga Eim­skips og Brims

Atli Ísleifsson skrifar
Konan sveik út vörur og þjónustu í verslunum Krónunnar fyrir um 360 þúsund krónum. Myndin er úr safni.
Konan sveik út vörur og þjónustu í verslunum Krónunnar fyrir um 360 þúsund krónum. Myndin er úr safni. Getty

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt konu í tíu mánaða fangelsi fyrir að hafa í nokkrum tilfellum svikið út vörur og þjónustu í verslunum og hjá einni bílaleigu með því að nýta sér vitneskju um viðskiptareikning hjá Eimskip og Brim til úttektar í eigin þágu.

Konan var sömuleiðis dæmd fyrir að hafa í fjögur skipti verið tekin fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Í ákæru er rakið hvernig konan hafi í apríl og maí á síðasta ári í sjö tilvikum svikið úr vörur og þjónustu í nokkrum verslunum Krónununnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir samtals um 360 þúsund krónur. Hafi hún þá nýtt sér vitneskju um viðskiptareikning Eimskips og þannig svikið út vörurnar.

Í ákæru segir einnig frá því að konan hafi í lok apríl 2020 svikið út afnot af bílaleigubíl hjá bílaleigunni Höldi á Akureyri þar sem hún nýtti sér vitneskju um viðskiptareikning hjá Brim hf. til úttektar í eigin þágu og án heimildar félagsins og látið þannig skuldfæra andvirði leigunnar á eiganda.

Konan játaði brot sín skýlaust. Í dómnum segir að sakaferill konunnar nái aftur til ársins 1993 og hafi hún áður hlotið þrettán refsidóma eftir að hún varð átján ára, flesta vegna skjalafals og fjársvika en einnig vegna annarra brota gegn hegningarlögum, auk brota gegn fíkniefna- og umferðarlögum.

Dómari þótti hæfileg refsing í málinu vera tíu mánuðir, og var það metið til refsilækkunar játning konunnar og að hún hafi lagt fram vottorð þess efnis að hún hafi lokið áfengis-og vímuefnameðferð.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.