Innlent

Rannsókn að ljúka í fimm kannabismálum: Málin tengjast

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á fimm málum sem tengjast skipulagðri kannabisframleiðslu, lýkur á næstu tveimur vikum.
Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á fimm málum sem tengjast skipulagðri kannabisframleiðslu, lýkur á næstu tveimur vikum.

Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á fimm málum sem tengjast skipulagðri kannabisframleiðslu, lýkur á næstu tveimur vikum. Fimm hafa réttarstöðu sakbornings. Málin tengjast öll með einum eða öðrum hætti að sögn yfirlögregluþjóns.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur í sumar upprætt fimm stórar ræktanir af kannabisplöntunni í íbúðar-og iðnaðarhúsnæði.  Alls fundust um  800 plöntur og götuvirði þeirra, þ.e. af tilbúnu efni er metið á um níutíu milljónir króna.  Þá var lagt hald á búnað og tæki. 

Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir rannsókn málanna á lokastigum.

„Við erum að klára þessi mál og sendum þau til ákærusviðsins á næstu tveimur vikum. Í þessum málum hafa fimm aðilar réttarstöðu sakbornings en þau með þeim stærri sem við höfum fengist við  um nokkurt skeið,“ segir Margeir. 

Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu  segir rannsókn málanna á lokastigum.Vísir/Egill

Hann segir að málin fimm tengist með einum eða öðrum hætti. 

„Almennt eru þessi mál þannig að einhverjir einstaklingar taka sig saman og hefja  framleiðslu á kannabis. Svo  byrjar einhver úr upphaflega hópnum á nýrri  framleiðslu í samstarfi við nýja aðila.  Þá er ekkert víst að upphaflegi hópurinn viti af nýja hópnum eða öfugt.  Þannig að þetta tengist allt saman með beinum eða óbeinum hætti,“ segir Margeir.  

Aðspurður hvort einhver einn höfuðpaur sé í málunum fimm svarar Margeir á almennum nótum. 

„Stundum er einn höfuðpaur og stundum ekki. Oftast er það þó þannig að einn aðili stjórnar starfseminni,“ segir Margeir.

Aðspurður hvort lögreglan nái að anna öllum þeim fjölda mála sem berast til hennar,  svarar Margeir: 

„ Miðað við þær upplýsingar um brotastarfsemi sem við höfum og þau mál sem við þurfum að sinna þá vantar okkur meiri mannskap. Meðan hann er ekki nægur þurfum við að forgangsraða og það er staðan hjá okkur í dag.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.