Fótbolti

Pique nýtir sér vinsældir Messis

Sindri Sverrisson skrifar
Lionel Messi og Gerard Pique voru afar sigursælir saman hjá Barcelona.
Lionel Messi og Gerard Pique voru afar sigursælir saman hjá Barcelona. Getty/David Ramos

Gerard Pique er vitaskuld vel meðvitaður um vinsældir síns gamla lagsbróður til margra ára, Lionels Messi. Pique hefur nú keypt sjónvarpsútsendingaréttinn á Spáni frá leikjum Argentínumannsins í Frakklandi.

Pique og Messi hafa spilað saman hjá Barcelona stærstan hluta þessarar aldar og saman fagnað meðal annars átta Spánarmeistaratitlum og þremur Evrópumeistaratitlum.

Eftir vistaskipti Messis til Paris Saint-Germain hefur áhugi Spánverja á frönsku deildinni snaraukist og Pique ætlar að nýta sér það með kaupum á sýningarréttinum í gegnum fyrirtæki sitt Kosmos Holding. ESPN greindi fyrst frá þessu.

Búast má við því að Messi þreyti frumraun sína með PSG á sunnudaginn þegar liðið mætir Reims á útivelli. Leikurinn verður í opinn dagskrá fyrir Spánverja í gegnum Twitch-síðu rafíþróttalýsandans Ibai Llanos. Spænska stöðin Telecinco hefur einnig greitt fyrir réttinn til að sýna leikinn.

Kosmos keypti réttinn í samstarfi við Enjoy TV og ætlar að leigja hann út, samkvæmt frétt ESPN. Movistar átti áður réttinn til að sýna franska boltann á Spáni, og greiddi fyrir það innan við 2,5 milljónir evra, en hafnaði tilboði um að endurnýja samninginn áður en ljóst varð að Messi færi til Frakklands.

Fyrirtæki Pique átti líka sýningarréttinn að Ameríkukeppninni í sumar, þar sem Messi vann sinn fyrsta titil með argentínska landsliðinu, og keypti nýverið sýningarréttinn að ítölsku B-deildinni þar sem nokkrir Íslendingar spila.

Pique, sem er 34 ára, er einnig eigandi knattspyrnufélagsins Andorra sem spilar í spænsku 3. deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×