Innlent

Kosningar 2021: Broddur færist í bar­áttuna

Eiríkur Bergmann prófessor í stjórnmálafræði skrifar skrifar
Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, rýnir í fylgi flokkanna.
Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, rýnir í fylgi flokkanna. Vísir

Þótt heldur dauft hafi verið um litast í kosningabaráttunni hingað til má samt sjá svolítinn brodd færast í átökin núna þegar aðeins um mánuður er í kjördag. Því er kannski ekki fráleitt að spyrja, um hvað verði eiginlega kosið. Um hvað snúast þessar kosningar?

Líkt og ég hef áður nefnt í þessum greinaflokki hefur sóttin hingað til yfirskyggt alla þjóðmálaumræðu í landinu. Lengst af var almenn sátt um tálmanirnar og um þá nálgun stjórnvalda að fylgja ráðum sérfræðinga. Og satt að segja hreyktum við okkur um stund af einkar farsælli ferð í gegnum fárið. En róðurinn hefur nokkuð herst að undanförnu.

Viðameiri tálmanir hér

Á meðan fréttir dundu yfir af harðari ráðstöfunum víða annars staðar prísuðu Íslendingar sig sæla. Því klóra margir sér í höfðinu yfir þeirri stöðu sem uppi var komin, þegar þetta er skrifað, að Íslendingar skuli nú sæta strangari sóttvarnaráðstöfunum en flestir aðrir á Evrópska efnahagssvæðinu, bæði innanlands og á landamærunum.

Bólusettir Íslendingar mæta viðameiri hindrunum við heimkomu en borgarar flestra annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu. Bólusettir EES-borgarar fara frjálst á milli Kaupmannahafnar, Berlínar og Barselónu en Íslendingar þurfa hins vegar hvort tveggja að sæta skimun fyrir brottför og einnig eftir hana – auk þess að skrá sig inn í landið.

Þótt kannski hilli undir að dregið verði úr tálmunum á næstunni, líkt og boðað hefur verið, mun þessi staða líkast til hafa sín áhrif á lokasprettinn í kosningabaráttunni.

Stjórnmálaflokkar þýfgaðir svara

Lengst af veigruðu stjórnmálaflokkarnir sér við að móta stefnu í sóttvarnamálinu, vonuðust eflaust til þess að vandinn yrði gufaður upp fyrir kjördag og að þeir gætu því rætt önnur mál fyrir þessar kosningar.

Vissulega er ekki loku fyrir það skotið, að staðan verði orðin vænlegri þegar þar að kemur og að önnur mál taki yfir sviðið, svo sem kannski flóttamannamál í kjölfar atburðanna í Afganistan.

Eigi að síður má nú samt ljóst vera að flokkarnir samt þýfgaðir svara í sóttvarnamálinu, að kosningarnar muni að einhverjum hluta hverfast bæði um farsóttina sem slíka og líka almennt um heilbrigðismál í víðara samhengi – hvort tveggja er jú samtengt.

Átakaás heilbrigðismála

Sitjandi ríkisstjórn er samsett með óhefðbundnum hætti. Flokkar á sitt hvorum endanum í afstöðu til samspils ríkisrekstrar og einkaframtaks sitja nú saman við stjórnarborðið. Á meðan VG vill færa aukið skattfé inn í almenna heilbrigðiskerfið er Sjálfstæðisflokkur áfram um að auka veg einkaframtaksins í heilbrigðisþjónustu.

Úr hefur orðið störukeppni, þar sem hvorug stefnan hefur náð fram að ganga. Hér er augljós átakaás sem ugglaust verður rækilega ræddur í kosningabaráttunni.

En hvernig standa flokkarnir þá gagnvart þessum málum? Rýnum næst í nýja skoðanakönnun Maskínu til þess að glöggva okkur á því.

Hin (fyrrum?) frjálslynda miðja

Í sögulegu tilliti hafa þrír stjórnmálaflokkar öðrum fremur gefið sig út fyrir frjálslynda lífsafstöðu í íslenskum stjórnmálum; Samfylking, Píratar og Viðreisn.

Athygli vekur að enginn þeirra hefur haldið fána frjálslyndis sérdeilis hátt á lofti í fárinu. Raunar hafa tveir þeirra tekið sér stöðu á strangari hlið við stjórnarstefnuna, semsé Samfylking og Píratar, en Viðreisn hefur verið fremur þögul, enn sem komið er.

Einmitt og akkúrat í þessu ljósi er athyglisvert að allir flokkarnir þrír tapa nú töluverðu fylgi í könnuninni.

Fall Pírata er mest, fara úr 12,7 prósent í júlí niður í 9,9 prósent nú. Viðreisn glatar 1,6 prósentustigi á milli mánaða, sígur niður í 10,7 prósent. Samfylking mælist nú með 13 prósent en naut 13,7 prósent fylgis fyrir mánuði.

Óánægja með andstöðuna

Samanlagt teljast þessir flokkar bróðurpartur stjórnarandstöðunnar. Hér er sérdeilis athyglisvert að í könnun Maskínu er langstærsta fylgishreyfingin einmitt fólgin í afstöðunni til starfa stjórnarandstöðunnar, ánægja með störf hennar fellur út 15,8 prósent í 10,4 prósent – eiginlega komin við frostmark.

Enn sem komið er höfum við heyrt heldur lítið um afstöðu þessara flokka til framangreindra átaka á milli ríkisrekstrar og einkaframtaks í heilbrigðiskerfinu. Vissulega getum við ályktað að Samfylkingin vilji heldur byggja á auknum fjárframlögum úr ríkissjóði til Landspítalans og að Viðreisn sé ef til vill hallari undir einkarekstur. En í þessum málum höfum við nú samt ekki ennþá fengið fram sérlega skýra kosningastefnu.

Sterk staða stjórnarflokka

Ríkisstjórnarflokkarnir bæta allir við sig í ágústkönnun Maskínu. Hlutfallslega hlýtur Framsóknarflokkur mestu fylgisaukninguna á milli mánaða, fer úr 9,9 prósent í 12,6 prósent.

Sjálfstæðisflokkur hækkar um tvö og hálft prósentustig á milli mánaða, fer úr 20,9 prósent í 23,4 prósent og ber höfuð og herðar yfir fylgi annarra flokka.

Hér nýtur flokkurinn eflaust þess að frelsissjónarmið í sóttvarnarmálum hafa einkum heyrst úr röðum Sjálfstæðismanna um leið og flokkurinn í ríkisstjórn stendur jú að ströngum sóttvarnarráðstöfunum. Sjálfstæðisflokkur nær með öðrum orðum að rúma bæði sjónarmið þótt öndverð séu.

Þá hefur flokkurinn verið í fararbroddi þeirra sem tala nú af vaxandi þunga fyrir aukinni aðkomu einkaframtaks í heilbrigðisþjónustu.

Þrengist að (annars sterkri stöðu) VG

Staða Vinstri Grænna er æði áhugaverð nú um stundir. Bætir við sig minnstu fylgi stjórnarflokkana, stendur nánast í stað með 14,2 prósent – upp um aðeins 0,1 prósent og því ekki marktækur munur.

Nokkrir gagnstæðir kraftar toga hér samtímis, til dæmis þessir:

Flokkurinn nýtur þess augljóslega að standa í stafni sóttvarnaráðstafanna og kjósendur hans virðast almennt hafa litlar athugasemdir við þær.

En á samri stundu unir stór hluti kjósendanna sér illa í sambúðinni við Sjálfstæðisflokk og lítur því í aðrar áttir.

Aukinheldur stendur VG frammi fyrir snaraukinni samkeppni frá vinstri, frá hinum nýja Sósíalistaflokki sem stöðugt sækir í sig veðrið og mælist nú nokkuð marktækt yfir þröskuldi, með 6,9 prósent. Gera verður ráð fyrir að drjúgur hluti fylgis þeirra komi frá VG. Sósíalistaflokkurinn gamli er jú einn forvera VG og því er augljós gangvegur þarna á milli.

Nýi Sósíalistaflokkurinn hefur gagnrýnt ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur bæði fyrir þjónkun við auðvaldið í efnahagsmálum og sömuleiðis fyrir að grípa ekki til strangari tálmana. Sósíalistar sækja því fast að fylgi VG frá vinstri, hafa líkast til reytt frá þeim töluvert af þeim fylgi hinna róttæku.

Samtímis má gera ráð fyrir að VG hafi laðað að sér nýtt fylgi frá fólki sem fremur leggur áherslu á stöðugleika.

Fallbaráttan

Enn eru ónefndir tveir flokkar sem mælast með minnst fylgi í könnun Maskínu. Miðflokkurinn stendur enn nokkurn vegin á þröskuldi og óvíst er hvort hann haldist yfir höfuð inni á þingi. Í þeim málum sem þessar kosningar virðast ætla að hverfast um hafa Miðflokksmenn ekki enn lýst nægjanlega skýrri stefnu svo hægt sé að taka hana til skoðunar hér.

Flokkur fólksins mælist enn og aftur undir þröskuldi og virðist enn sem komið er ætla að lúta í lægra haldi í fylgisbaráttunni við Sósíalistaflokkinn, en báðir flokkar sækja jú um sumt á svipuð mið. Mælist nú með minnsta fylgi sitt í mánaðarlegum könnun Maskínu á þessu ári, með aðeins 4,2 prósent að þessu sinni.

Baráttan er við borðið

Að samanlögðu má kannski sjá að við stöndum nú frammi fyrir þeirri sérkennilegu stöðu, að einna skýrustu átakalínurnar í þessum kosningum liggi ekki síst á milli tveggja ríkisstjórnarflokka, annars vegar á milli VG sem vill snarbæta hið opinbera heilbrigðiskerfi og hins vegar Sjálfstæðisflokksins, sem vill laða að krafta einkaframtaksins að því í auknu mæli.

Alþingiskosningar fara fram 25. september 2021. Fram að þeim mun fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar birta reglulega niðurstöður skoðanakannana Maskínu er snúa að kosningunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×