Innlent

Grunur um al­var­legar auka­verkanir: Vara við inn­töku húð­krems gegn Co­vid-19

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lyfjaver apótek
Lyfjaver apótek Vísir/Vilhel

Lyfjastofnun og embætti landlæknis vilja árétta að lyfið Soolantra (ivermektín) er einungis notað til útvortis notkunar á húð, en ekki til inntöku. Stofnanirnar hafa áreiðanlegar upplýsingar um að sjúklingar með COVID-19 hafi tekið lyfið um munn og rökstuddan grun um að það hafi haft alvarlegar aukaverkanir í för með sér.

Í tilkynningu frá Lyfjastofnun og embætti landlæknis segir að lyfið, sem er í kremformi, sé einungis ætlað til notkunar á húð til meðferðar við bólum og þrymlum sem fylgja húðsjúkdómnum rósroða.

„Lyfjastofnun og embætti landæknis hafa áreiðanlegar upplýsingar um að sjúklingar með COVID-19 hafi tekið lyfið um munn og rökstuddan grun um að það hafi haft alvarlegar aukaverkanir í för með sér,“ segir í tilkynningunni.

Aukaverkanir geti verið margskonar og er ítrekað lyfið sé alls ekki ætlað til inntöku. Forðast skuli að bera kremið á augnlok, varir og slímhúðir, svo sem í nefi, munni, augum eða í meltingarvegi.

„Aukaverkanir sem geta hlotist af inntöku kremsins eða ofskömmtun ivermektíns geta verið: útbrot, bjúgur, höfuðverkur, sundl, þróttleysi, ógleði, uppköst og niðurgangur. Fleiri aukaverkanir sem tilkynnt hefur verið um eru: krampar, ósamhæfðar vöðvahreyfingar, mæði, kviðverkir, náladofi og ofsakláði.“

Hætta á aukaverkunum geti aukist með notkun stærri skammta lyfja eða ef lyfjaform ætluð til meðhöndlunar á húð eru tekinn um munn þar sem hjálparefni og virka efnið geta valdið ófyrirséðum auka- eða milliverkunum

Áður hefur verið tilkynnt um að Lyfjastofnun hafi upplýsingar um notkun sníkjudýralyfsins Ivermectin við Covid-19 hér á landi, en ekkert bendir þó til þess að lyfið gagnist í baráttunni við kórónuveiruna.

Til að tryggja sem best öryggi lyfjanotenda hefur Lyfjastofnun ákveðið að Z-merkja lyfið og þar með takmarka ávísun þess tímabundið, við sérfræðinga í húðsjúkdómum.


Tengdar fréttir

Hyggjast rannsaka áhrif Ivermectin gegn Covid-19

Rannsakendur við Oxford-háskóla hyggjast gefa einstaklingum eldri en 50 ára með einkenni Covid-19 lyfið Ivermectin til að kanna hvort notkun þess sporni gegn sjúkrahúsinnlögnum af völdum sjúkdómsins.

Lyfja­stofnun geti ekki mælt með notkun sníkju­dýra­lyfs gegn Co­vid

Lyfjastofnun hefur fengið upplýsingar um notkun sníkjudýralyfsins Ivermectin við Covid hér á landi. Stofnunin mælir ekki með notkun lyfsins, sem ekki hefur verið sýnt fram á að sýni nokkra virkni gegn Covid-19, hvorki sem fyrirbyggjandi lyf né í meðferð sjúklinga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×