Innlent

Lyfja­stofnun geti ekki mælt með notkun sníkju­dýra­lyfs gegn Co­vid

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Lyfjastofnun mælir ekki með notkun lyfsins í tengslum við Covid, hvorki við meðferð sjúklinga né í fyrirbyggjandi tilgangi.
Lyfjastofnun mælir ekki með notkun lyfsins í tengslum við Covid, hvorki við meðferð sjúklinga né í fyrirbyggjandi tilgangi. Soumyabrata Roy/NurPhoto via Getty

Lyfjastofnun hefur fengið upplýsingar um notkun sníkjudýralyfsins Ivermectin við Covid hér á landi. Stofnunin mælir ekki með notkun lyfsins, sem ekki hefur verið sýnt fram á að sýni nokkra virkni gegn Covid-19, hvorki sem fyrirbyggjandi lyf né í meðferð sjúklinga.

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, segir að stofnunin hafi fengið ábendingar um að verið sé að hvetja til notkunar lyfsins hér á landi, og raunar einnig að verið sé að nota það.

Hún bendir á að evrópska lyfjastofnunin og sú bandaríska hafi báðar lýst því yfir að ekkert bendi til þess að lyfið gagnist í baráttunni við kórónuveiruna.

„Það voru svo sem einhverjar vonir bundnar við þetta í upphafi, en það hefur síðan ekki komið í ljós,“ segir Rúna.

Ivermectin er orma- og sníkjudýralyf, sem samþykkt hefur verið til meðferðar hjá dýrum, en einnig fólki í ákveðnum tilvikum. Það hefur hins vegar ekki verið samþykkt sem meðferð við Covid-19.

Getur það reynst fólki hættulegt að nota lyfið gegn Covid?

„Það er alls óvíst. Það er óvíst í hvaða skömmtum er verið að mæla með þessu og annað slíkt. Við höfum bara varað við því að fólk sé að nota eitthvað sem ekki hefur skráðar ábendingar og ekki er verið að ávísa. Fólk veit kannski ekki hvaðan það kemur og hvernig ávísunin er,“ segir Rúna.

Hún segir lítið vitað um notkun lyfsins gegn Covid, en ekkert hafi komið fram um sérstakan ávinning af því að nota lyfið í tengslum við Covid-19.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×