Innlent

Kötturinn Birta er einn öflugasti plokkari landsins

Elma Rut Valtýsdóttir og Sunna Sæmundsdóttir skrifa
Kötturinn Birta sem búsett er á Höfn í Hornafirði er afar öflugur plokkari og hefur meðal annars hlotið styrk frá umhverfissamtökunum Bláa hernum fyrir störf sín.
Kötturinn Birta sem búsett er á Höfn í Hornafirði er afar öflugur plokkari og hefur meðal annars hlotið styrk frá umhverfissamtökunum Bláa hernum fyrir störf sín. Stöð 2

Kötturinn Birta er einn öflugasti plokkari landsins. Hún fyllir um tvo ruslapoka í hverjum mánuði og hefur hlotið styrk frá umhverfissamtökunum Bláa hernum.

Birta er búsett á Höfn í Hornafirði. Hana má gjarnan sjá með rusl í kjaftinum sem hún tínir upp af götum bæjarins en hún sækir sérstaklega í byggingarsvæði.

„Hún er búin að koma með mjög margt þaðan, til dæmis þéttikanta, fjórum sinnum, svona stóra poka. Hún er búin að koma með fimm sex metra langar lengjur þaðan,“ segir Stefanía Hilmarsdóttir, eigandi Birtu.

Líkt og sönnum umhverfisverndarsinna sæmir tínir hún einnig plast og kemur með grímur og plast sem hún finnur á víðavangi. Segja má að Birta sé á meðal öflugustu plokkara landsins.

„Hún hefur mikið dálæti á garðhönskum og það var mikil vertíð hjá henni eða uppgrip þegar unglingavinnan var núna í vor.“

Það furðulegasta sem Birta hefur fært eiganda sínum er óopnaður bjór á nýársmorgun og fyrir það segist Stefanía hafa verið þakklát.

Birta fyllir um tvo ruslapoka í mánuði og fékk hún nýverið styrk frá umhverfissamtökunum Bláa hernum til kaupa á GPS staðsetningartæki til þess að hægt sé að fylgjast með ferðum hennar.

Stefanía segist afar stolt af framtakinu og er Birta það ekki síður.

„Hún verður mjög montin ef að ég verð vitni af því að hún er að koma með eitthvað. Þá er hún alveg að springa.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×