Fótbolti

Tekinn fullur undir stýri og missir ökuréttindin

Valur Páll Eiríksson skrifar
Nainggolan lék með Inter á undirbúningstímabilinu en var látinn fara frá félaginu fyrr í þessum mánuði.
Nainggolan lék með Inter á undirbúningstímabilinu en var látinn fara frá félaginu fyrr í þessum mánuði. Mattia Ozbot - Inter/Inter via Getty Images

Belginn Radja Nainggolan fer ekki vel af stað eftir endurkomu sína til heimalandsins. Aðeins viku eftir heimkomuna hefur hann misst ökuskírteinið.

Nainggolan hefur leikið á Ítalíu við góðan orðstír síðustu ár. Hann var lykilmaður hjá Cagliari og Roma og spilaði einnig eina leiktíð með Internazionale í Mílanó. Hann var á láni hjá Cagliari frá Inter síðustu tvö ár en samningi hans við Inter var rift í sumar.

Í kjölfarið gekk hann í raðir Antwerp í heimalandinu, sem hann samdi við 14. ágúst síðastliðinn. Belgískir fjölmiðlar greina frá því að Nainggolan hafi verið stöðvaður af lögreglumönnum í vikunni þar sem hann keyrði langt yfir hámarkshraða og reyndist vera með ólöglegt alkóhólmagn í blóðinu. Það var þess valdandi að hann var sviptur ökuréttindum sínum.

Nainggolan hefur oft verið gagnrýndur fyrir framgöngu sína utan vallar og var hann aldrei í náðinni hjá Roberto Martínez, þjálfara belgíska landsliðsins, þrátt fyrir augljós gæði á vellinum. Sömu sögu er að segja af Antonio Conte, fyrrum þjálfara Inter, sem hafði ekki not fyrir hann.

Nainggolan hefur reykt allan ferilinn og fræg eru ummæli hans frá 2018 þegar hann var spurður út í lífstíl sinn: „Diskótek og alkóhól? Ég gæti hætt því, en þá myndi ég ekki vera ég sjálfur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×