Erlent

Dæmd fyrir haturs­glæp fyrir að keyra á tvö þel­dökk börn

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Nicole Poole Franklin var dæmd í tuttugu og fimm ára fangelsi fyrir að hafa framið hatursglæpi.
Nicole Poole Franklin var dæmd í tuttugu og fimm ára fangelsi fyrir að hafa framið hatursglæpi. Skjáskot

Kona frá Iowa hefur verið dæmd í 25 ára fangelsi fyrir að hafa framið hatursglæp. Konan gerðist sek um tilraun til manndráps gegn tveimur börnum af afrískum eða miðausturlenskum uppruna með því að keyra á þau viljandi. Konan hélt að börnin væru frá Mexíkó.

Nicole Poole Franklin var á fimmtudag dæmd í 304 mánaða fangelsi af alríkisdómara. Það þýðir jafnframt að hún mun afplána dóminn í alríkisfangelsi, en þar er iðulega töluvert meiri löggæsla en í öðrum fangelsum. CNN greinir frá

Franklin fær að afplána árin 25 samtímis 17 og hálfs árs dómi sem hún hlaut í apríl fyrir morðtilraun. Hún játaði í apríl að hafa gerst sek um tvö brot gegn lögum um hatursglæpi.

Franklin sem er 43 ára gömul, ók bíl sínum um bæinn Des Moines í Iowa þann 9. desember 2019, þegar hún sá tólf ára gamlan dreng ganga með ættingja sínum og ákvað að keyra á drenginn. Ástæðan: Hún taldi að hann væri af miðausturlenskum eða afrískum uppruna að sögn saksóknara.

Árásin náðist á myndbandsupptöku og segja saksóknarar að á henni sjáist að Franklin hafi viljandi keyrt yfir fótinn á drengnum, sem er svartur, og hafi svo ekið í burtu. Drengurinn slapp við skrekkinn og var lítillega særður.

Um klukkustund síðar keyrði Franklin á hina fjórtán ára gömlu Nataliu Miranda, sem var á leið heim af körfuboltaæfingu. Eftir að Franklin var handtekin sagði hún við lögreglumenn að hún hafi keyrt á Miranda vegna þess að hún taldi hana vera frá Mexíkó.

Rúmum klukkutíma eftir að hún keyrði á Miranda gekk Franklin berserksgang í verslun þar sem hún kallaði niðrandi ókvæðisorðum að búðarstarfsmönnum og kastaði í þá vörum úr búðinni. Franklin var handtekin stuttu síðar.

Fréttin hefur verið uppfærð en upprunalega stóð að konan hefði verið dæmd fyrir morð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×