Fótbolti

Kante, Jorginho og De Bruyne tilnefndir sem leikmenn ársins hjá UEFA

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kevin De Bruyne, Jorginho og N'Golo Kante eigast við í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.
Kevin De Bruyne, Jorginho og N'Golo Kante eigast við í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Valerio Pennicino - UEFA/UEFA via Getty Images

Kevin De Bruyne, N'Golo Kante og Jorginho eru þeir þrír leikmenn sem tilnefndir eru sem leikmenn ársins hjá UEFA.

Jorginho og Kante unnu Meistaradeildina með Chelsea í vor, en liðið spilaði einmitt til úrslita gegn De Bruyne og félögum hans í Manchester City. Jorginho varð einnig Evrópumeistari með Ítölum í sumar.

Tilkynnt verður um sigurvegara samhliða því þegar dregið verður í riðla í Meistaradeildinni næstkomandi fimmtudag, en pólski framherjinn Robert Lewandowski hreppti verðlaunin í fyrra.

Þetta verður í ellefta skipti sem verðlaunin eru afhent, en þetta er í fyrsta skipti sem að þeir þrír sem eru tilnefndir eru allir miðjumenn.

Í kvennaflokki eru þær Jenni Hermoso, Lieke Martens og Alexa Putellas tilnefndar, en þær eru allar samherjar hjá Barcelona sem vann Meistaradeildina í vor.

Þá eru einnig veitt verðlaun fyrir þjálfara ársins í karla og kvennaflokki. Í kvennaflokki eru þau Emma Hayes, þjálfari Chelsea, Lluis Cortes, fyrrum þjálfari Barcelona og Peter Gerhardsson, þjálfari Svía, tilnefnd til verðlaunanna.

Pep Guardiola, þjálfari Manchester City, Thomas Tuchel, þjálfari Chelsea, og Roberto Mancini, þjálfari ítalska landsliðsins eru tilnefndir í karlaflokki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×