Innlent

Lögregla býr sig undir átök

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Logi tekst hér á við erfiðar aðstæður, sem leiddu til þess að hann þurfti að taka upp táragasið.
Logi tekst hér á við erfiðar aðstæður, sem leiddu til þess að hann þurfti að taka upp táragasið.

Það er lykilatriði að geta brugðist hratt og rétt við, segja lögreglufulltrúar við Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglunnar en þar hefur verið í notkun svokallaður þjálfunarhermir þar sem æfð eru viðbrögð, ákvarðanataka, samskipti og valdbeiting. Hermirinn skipar stöðugt stærra hlutverk í þjálfun lögreglumanna hér á landi.

„Þetta er tæki sem er mjög gott til að horfa á sjálfan sig þegar maður kemur inn í aðstæður og hvernig maður bregst við. Það er hægt að setja á pásu og rýna í hlutina, hafa tíma til að hugsa hvað maður ætlar að gera næst,“ segir Guðmundur Ásgeirsson, lögreglufulltrúi.

Hermirinn gefur fólki ákveðna innsýn inn í erfiðar aðstæður og hvernig best er að bregðast við. Raddbeiting og líkamsbeiting skiptir einnig máli og þannig er hægt einnig að leysa úr erfiðum aðstæðum.

Guðmundur Ásgeirsson segir þjálfunarherminn hafa gagnast vel. Mikilvægt sé að lögreglumenn geti búið sig undir átök eins vel og kostur er. 

„Þetta getur verið krefjandi. Þegar nemarnir koma þá hafa þeir aldrei lent í svona aðstæðum. Og þá reynir svolítið á þau,“ segir Logi Jes Kristjánsson, lögreglufulltrúi. Hann segir að hermirinn geti aldrei komið í veg fyrir líkamlega þjálfun á borð við handtökuaðferðir og viðbragðsæfingar, en að hann gagnist þó vel. 

„Nemendur geta ekki farið að kljást við skjáinn en fá að nota röddina og valdbeitingartækin á borð við kylfu og gas.“

Hermirinn gagnast einnig í skotvopnaþjálfun. 

„Í grunnþjálfun lögreglunema getum við leyft þeim að kynnast skotvopnum lögreglu á algjörlega hættulausan hátt og við getum notað herminn til að kenna þeim að halda á byssunni, miða og skjóta – draga í gikkinn á skotmörk algjörlega hættulaust. Þau fá þessa þjálfun áður en þau fara að skjóta alvöru skotum á skotsvæði,“ segir Guðmundur en lögreglu- og sérsveitarmenn nýta sér herminn líka töluvert. „Hlutirnir gerast hratt og þá þurfa menn að kunna að bregðast við.“

Logi segir ekki hægt að bera raunverulegar aðstæður saman við þær aðstæður sem blasa við í herminum - en gefi fólki þó innsýn í hvernig starfið er og hversu hratt þarf að bregðast við.

Þeir segja þó að ekki sé hægt að líkja herminum við raunverulegar aðstæður, en að mikilvægt sé að lögreglunemar og -menn geti búið sig eins vel undir átök og kostur er. 

„Það er eiginlega ekki hægt að bera það saman. Þú þarft að nota öll skyn, lykt, heyrn, augu og allt saman. Þetta hjálpar fólki samt að æfa upp þetta viðbragð – að bregðast hratt og rétt við,“ segir Logi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×