Lífið

Fer með hlut­­verk í þáttum eftir einn vin­sælasta rit­höfund Frakk­lands

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Salóme mun fara með hlutverk fröken Deville í þáttaröðinni The Reunion.
Salóme mun fara með hlutverk fröken Deville í þáttaröðinni The Reunion. Skjáskot/instagram

Leikkonan Salóme R Gunnarsdóttir mun fara með hlutverk í nýrri spennuþáttaröð byggðri á bók eftir einn ástsælasta rithöfund Frakklands. Stórleikarinn Ioan Gruffudd er á meðal þeirra sem fara með hlutverk í þáttunum.

Þáttaröðin ber heitið The Reunion og byggir á bókinni La Jeune Fille et la Nuit sem metsöluhöfundurinn Guillaume Musso gaf út árið 2018.

Musso hefur gefur út fleiri en tuttugu bækur og nýtur gríðarlegra vinsælda í Frakklandi og út um heim allan.

Samkvæmt IMDB mun þáttaröðin innihalda sex þætti, en tökur standa yfir þessa dagana.

Þættirnir fjalla um nítján ára gamla stúlku sem hverfur sporlaust eftir að hafa átt í ástarsambandi við kennarann sinn. Tuttugu og fimm árum síðar kemur sannleikurinn í ljós þegar skólafélagar stúlkunnar koma saman á ný, þegar á að fara rífa niður leikfimishús skólans.

Musso svipti hulunni af leikaravali þáttanna á Instagram-síðu sinni í gær. Þar kemur fram að Salóme muni fara með hlutverk fröken Deville.

Salóme hefur getið sér gott orð sem leikkona bæði hérlendis sem og erlendis. Hún hefur meðal annars farið með hlutverk í þáttunum Pennyworth, Knightfall og kvikmyndinni Valhalla - The Legend of Thor.

Leikarinn Ioan Gruffudd, best þekktur fyrir hlutverk sitt í Fantastic Four, er á meðal þeirra sem fara með hlutverk í þáttunum. Aðrir leikarar eru Ivanna Sakho, Ruppert Graves, Vahina Giocante, Grégory Fitoussi, Dervla Kirwan og Shemss Audat.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×