Innlent

Gjörgæslan sprungin og sjúklingar sendir til Akureyrar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
13 eru á gjörgæslu á Landspítalanum í Fossvogi.
13 eru á gjörgæslu á Landspítalanum í Fossvogi. Vísir/Vilhelm

Gjörgæsludeild Landspítalans er yfirfull og þarf því að senda sjúklinga á sjúkrahúsið á Akureyri. Þrettán í heildina eru á gjörgæslu, þar af átta með kórónuveiruna. Fimm eru í öndunarvél. Ólafur G. Skúlason, forstöðumaður gjörgæsludeildar, segir að lítið megi út af bregða.

„Staðan hjá okkur er mjög þung á gjörgæslunni. Við erum með þrettán sjúklinga inniliggjandi og fimm af þeim eru í öndunarvélum, þannig að við getum sagt að ástandið hér sé vægast sagt þungt hjá okkur,“ segir Ólafur.

Þó þrettán séu inniliggjandi er aðeins mannað fyrir tíu sjúklinga. Ólafur segir að allra leiða sé leitað til að fá auka starfsfólk. 

„Við köllum inn hjúkrunarfræðinga og lækna en það er mikill skortur á gjörgæsluhjúkrunarfræðingum og svæfingalæknum. Við erum að kalla inn og leita annarra leiða annarra leiða til að fá fólk til að aðstoða okkur, til dæmis frá einkastofum, erum í samstarfi við Akureyri og fleira.“

Þá hefur þegar einn sjúklingur verið fluttur á Heilbrigðisstofnun Norðurlands en sá er ekki covid-smitaður. Slíkir flutningar eru erfiðari og sjúklingar þurfa að vera í sérstökum hylkjum á meðan ferðalaginu stendur. Ólafur segir stöðuna erfiða.

„Við ráðum við stöðuna eins og er, en það er bara okkar frábæra starfsfólki að þakka. Staðan er hins vegar mjög þung og það reynir mikið á starfsfólkið okkar og það er þeirra eljusemi að þakka að við ráðum við þetta. En að því sögðu er starfsfólk orðið mjög þreytt, það er búið að vinna mjög mikið en kannski lítið þol eftir hjá okkur,“ segir hann.

Það má kannski lítið út af bregða í þessu ástandi?

„Já við erum stödd þar,“ segir Ólafur. 

„Ég hef áhyggjur af þessu. Sérstaklega í ljósi þess að smit eru mjög mörg og mikið um innlagnir, þannig að ég get ekki annað sagt en að ég sé áhyggjufullur.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.