Innlent

Friðlandið í Flatey tvöfaldað að stærð

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Viðstaddir stækkunina voru fulltrúar ábúenda í eynni, sveitarfélagsins Reykhólahrepps, Breiðafjarðarnefndar, Umhverfisstofnunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.
Viðstaddir stækkunina voru fulltrúar ábúenda í eynni, sveitarfélagsins Reykhólahrepps, Breiðafjarðarnefndar, Umhverfisstofnunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Stjórnarráðið

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í gær auglýsingu um stækkun friðlandsins í Flatey. Meginmarkmið friðlýsingarinnar er að vernda sérstætt og fjölbreytt lífríki svæðisins og búsvæði fugla, einkum varpsvæði fágætra fuglategunda, s.s. þórshana, kríu og lunda.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Með þessu verður stærð friðlandsins tvöfölduð í 1,62 ferkílómetra. Stækkunin er austan marka verndarsvæðis í byggð og nær til eyja, hólma og skerja suður af Flatey. Þá tekur hún til hafsbotnsins, lífríkis og vatnsbóls. Friðlandið er innan verndarsvæðis Breiðafjarðar sem er verndað með sér lögum.

„Friðlandið hefur hátt vísinda- og fræðslugildi og er vel þekkt á meðal vísindamanna og fuglaáhugafólks. Búsvæði og lífríki í fjörum og í sjó er afar fjölbreytt og mikilvægt fæðusvæði margra fuglategunda. Náttúrufegurð svæðisins er einnig mikil og þar finnst m.a. marhálmur sem er sjaldgæfur á landsvísu.

Markmið með friðlýsingunni er einnig að tryggja rannsóknir og vöktun á lífríki svæðisins, með áherslu á búsvæði og afkomu varpfugla og að tryggja fræðslu um fuglalífið í eynni og nágrenni,“ segir í tilkynningunni.

„„Flatey er óumdeilanlega perla Breiðafjarðar. Náttúran sjálf segir sína sögu um það hvað gerði eyna að ákjósanlegri miðstöð mannlífs við Breiðafjörð. Hér er merkileg saga búsetu þar sem samspil manns og náttúru var og er í jafnvægi. Líffræðileg fjölbreytni svæðisins er mikil enda fjölskrúðugt fuglalíf í eynni sem byggir afkomu sína á fjölbreyttu fæðuframboði á landi, í fjörum og í sjó. Það er því mikilvægt fyrir komandi kynslóðir, okkur sjálf og gesti okkar að tryggja verndun perlu eins og Flateyjar,“ er haft eftir Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×