Innlent

Sóttu kalda strandaglópa við Blöndu

Eiður Þór Árnason skrifar
Það var annasamur sólarhringur hjá þyrlusveit Landhelgisgæslunnar. 
Það var annasamur sólarhringur hjá þyrlusveit Landhelgisgæslunnar.  Landhelgisgæslan

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar sinnti fjórum útköllum vegna slysa og veikinda í gær. Í fyrrinótt var áhöfnin á TF-EIR kölluð út vegna fólks sem varð strandaglópar við Blöndu eftir bílveltu.

Að sögn Gæslunnar var fólkið orðið kalt og hrakið þegar áhöfnin kom á staðinn laust fyrir klukkan fimm. Hópurinn var á leið frá Akureyri til Reykjavíkur um Sprengisand og Kjalveg á buggý bílum og var fluttur til Reykjavíkur með TF-EIR.

Í hádeginu í gær var þyrlusveitin kölluð út til að annast sjúkraflug frá Vestmannaeyjum. Sjúkraflugvél gat ekki lent á Heimaey vegna flugbrautarframkvæmda og því var TF-EIR send til Eyja. Þyrlan lenti á Reykjavíkurflugvelli þar sem sjúkrabíll beið og flutti sjúklinginn á Landspítalann, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Slasaðist á Langahrygg

Laust eftir klukkan átta í gærkvöldi var þyrlusveitin kölluð út þegar göngumaður slasaðist í Móskarðshnúkum í miklum bratta og þurfti að komast undir læknishendur. Björgunarsveitarmenn frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg huguðu að manninum þar til þyrla Gæslunnar kom á staðinn og flutti til Reykjavíkur.

Á ellefta tímanum í gær var áhöfn þyrlunnar kölluð út í fjórða sinn vegna konu sem slasaðist á gönguleiðinni á Langahrygg og ljóst að erfitt yrði að flytja hana landleiðina. Að sögn Gæslunnar huguðu björgunarsveitarmenn að konunni þar til áhöfn TF-EIR kom á staðinn. Hún var hífð um borð í þyrluna og flutt á Landspítalann í Fossvogi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×