Innlent

Heilbrigðisstofnun Suðurlands hleypur undir bagga með Landspítalanum

Magnús Hlynur Hreiðarsson og Árni Sæberg skrifa
Díana Óskarsdóttir er forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.
Díana Óskarsdóttir er forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Aðsend

Þrátt fyrir mikið álag á Heilbrigðisstofnun Suðurlands verða sjúklingar á Landspítalanum meðal annars fluttir á sjúkrahúsið á Selfossi til að létta á álagi á spítalanum. Tíu til fimmtán auka rúmum verður komið fyrir, meðal annars á fæðingardeildinni.

Það hefur verið meira en nóg að gera hjá starfsfólki Heilbrigðisstofnunar Suðurlands við sýnatökur og bólusetningar síðustu vikurnar með góðri aðstoð frá viðbragðsaðilum. Til dæmis sér lögreglan um umferðarstjórnun þegar sýnataka fer fram.

160 einstaklingar eru með virkt kórónuveirusmit og því í einangrun á Suðurlandi.

Díana Óskarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, segir í samtali við fréttastofu mikið álag vera á sínu starfsfólki. „Það liggur fyrir að við þurfum að auka mannskap til að geta haldið uppi eðlilegri þjónustu á heilsugæslustöðvunum,“ segir hún.

„Við erum farin að vinna í því að auglýsa eftir fólki og erum að hringja í fólk sem er hætt að vinna og reyna að tæla það aðeins til baka.“ bætir Díana við.

Taka við sjúklingum frá Landspítala þrátt fyrir álagið

Díana segir að verið sé að undirbúa nokkur pláss á sjúkrahúsinu á Selfossi til að taka við sjúklingum frá Landspítala sökum fráflæðisvanda.

„Þeir eru bara í alvarlegri stöðu og eru í raun að biðla til okkar, bæði að við höldum okkar sjúklingum sem lengst hjá okkur, við erum aðeins að reyna að bæta þjónustuna hjá okkur á bráðamóttökunni, að setja inn fleiri rúm þar svo við getum haldið sjúklingunum lengur hjá okkur og líka tekið við sjúklingum sem eru í biðplássum og eru þá að teppa flæðið hjá þeim,“ segir hún.

Sjúklingar af Landsspítalanum verða meðal annars færðir í rúm á fæðingardeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á SelfossiMagnús Hlynur Hreiðarsson

Díana segir að átta rúm á fæðingardeildinni verði tekin undir sjúklinga Landspítalans en samt sem áður verði fæðingaþjónusta tryggð á sjúkrahúsinu.

Þrátt fyrir mikið álag á Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur ekki þurft að kalla starfsfólk inn úr sumarfríum, enn sem komið er.

„Við höfum ekki farið þá leið að kalla inn fólk“ sagði Díana Óskarsdóttir forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×