Innlent

Rakningar­teymið nær ekki lengur að sinna öllum

Óttar Kolbeinsson Proppé og Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifa
Hjördís Guðmundsdóttir er samskiptastjóri almannavarna.
Hjördís Guðmundsdóttir er samskiptastjóri almannavarna. vísir/vilhelm

Svo margir greinast nú dag­­lega með kórónu­veiru­­smit að smitrakningar­teymið nær ekki að hringja í alla þá sem eiga að fara í sótt­kví. Nú eru þeir sem smitast beðnir að hafa sjálfir sam­band við þá sem þeir hafa verið í ná­vígi við og sendir rakningar­teymið að­eins á þá SMS með á­minningu um að þeir séu komnir í sótt­kví.

„Rakningin okkar er enn þá í fullum gangi en það sjá það náttúru­lega allir að þegar við erum með svona á­stand eins og í dag að þá er rakningin ekki að ná að gefa jafn frá­bæra þjónustu eins og hefur verið,“ sagði Hjör­dís Guð­munds­dóttir, sam­skipta­stjóri al­manna­varna, í há­degis­fréttum Bylgjunnar í dag.

„Þessi þjónusta, þegar hefur verið náð að hringja í alla og segja þú ert að fara í sótt­kví og út­skýrt hvernig sótt­kví virkar, þessu náum við ekki í dag,“ heldur hún á­fram.

„Við náum að benda fólki á að það eigi að vera í sótt­kví og að það geti lesið sér til um hvað það þýðir. Þetta er okkar nýi veru­leiki akkúrat í dag. Við þurfum svo­lítið að passa upp á okkur sjálf og bera á­byrgð.“

Fólk með einkenni tregt til að fara í sýnatöku

Hún telur að fólk sé orðið hálf­kæru­laust þegar það finni fyrir ein­kennum:

„Margir eru með ein­kenni en hugsa: Ég er bólu­settur eða bólu­sett og þetta er bara eitt­hvað kvef,“ segir hún og telur þetta eina skýringu þess að svo margir greinist á­fram utan sótt­kvíar.

Aldrei hafa fleiri greinst með virkt smit á einum degi og í gær, þegar 145 greindust hér innan­lands. Af þeim voru 98 utan sótt­kvíar við greiningu.

Ekki eru nema ör­fáir dagar síðan fyrra met var slegið og má búast við að smit­tölur næstu daga verði svipaðar og tölur gær­dagsins ef ekki hærri, að sögn Hjör­dísar.

„Talan er há og þetta er eigin­lega orðið þannig að okkur finnst hundrað orðið eitt­hvað venju­legt, en auð­vitað er það ekki venju­legt og það er á­stæða fyrir því að við erum að tala um það sem við þurfum að vera að gera öll saman,“ segir Hjör­dís.

„Ég held við þurfum bara enn og aftur að hvetja fólk, sem er með ein­kenni til að fara í sýna­töku. Það er bara það sem skiptir okkur öllu máli, fyrir allt sam­fé­lagið.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×