Sjúklingarnir á gjörgæsludeild eru ekki fullbólusettir, að sögn Runólfs Pálssonar, yfirmanns Covid-göngudeildar. Annar þeirra er yngri en sextíu ára og hinn yfir sextugt. Báðir eru með undirliggjandi áhættuþætti en hinir átta sem liggja á legudeild eru allir fullbólusettir.
Fram kom í máli Ölmu Möller landlæknis á upplýsingafundi í dag að róðurinn hafi þyngst síðustu daga.
Sextán hafa alls þurft að leggjast inn á sjúkrahús með Covid-19 frá 1. júlí. Alma sagði að þrír þeirra hafi þó ekki verið lagðir inn vegna veikinda heldur af öðrum ástæðum. Samtals hafa 1.024 greinst með veiruna á sama tímabili, þar af 936 innanlands.
Staðan væri mun verri án bólusetninga
Alma ítrekaði að rannsóknir sýni að bólusetning dragi mikið úr veikindum og veiti yfir 90% vörn gegn alvarlegum veikindum.
„Það er því ljóst að staðan væri mun alvarlegri ef ekki væri vegna bólusetninga.“
Alma sagði mikið álag á Landspítala og biðlaði til heilbrigðisstarfsmanna að koma til liðs við bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar sem var nýverið endurvakin.
59 heilbrigðisstarfsmenn hafa nú skráð sig í sveitina en einnig er búið að opna fyrir skráningu þeirra sem eru ekki heilbrigðismenntaðir. Til að mynda vantar fólk til starfa í eldhús og við yfirsetu. Þar að auki leitar Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins nú liðsinnis fólks sem getur aðstoðað við sýnatöku. Þar er ekki gerð krafa um menntun á sviði heilbrigðisvísinda.
Fréttin hefur verið uppfærð.