Innlent

ÍBV íhugar að sækja um ríkisstyrk

Árni Sæberg skrifar
Ekkert verður af Þjóðhátíð þessa verslunarmannahelgi.
Ekkert verður af Þjóðhátíð þessa verslunarmannahelgi. VÍSIR/ÓSKAR P. FRIÐRIKSSON

Formaður þjóðhátíðarnefndar segir nefndina íhuga að sækja um ríkisstyrk vegna tekjutaps ÍBV af því að fresta þurfi Þjóðhátíð annað árið í röð. Morgunblaðið greindi frá þessu í morgun.

„Það er ómögulegt að segja hvort við fáum einhvern styrk frá ríkinu, en okkur fyndist það eðlilegt þegar lokað er á hátíðina með viku fyrirvara. Það er stjórnvaldsaðgerð og því hljóta yfirvöld að hafa tekið áhrifin af henni með í reikninginn. Ríkisstjórnin hlýtur að hafa gert það,“ segir Hörður Orri Grettisson í samtali við Viðskiptamoggann.

ÍBV fékk ýmsa styrki í fyrra þegar aflýsa þurfti Þjóðhátíð en enginn þeirra kom beint úr ríkissjóði. Styrktaraðilar voru aðallega fyrirtæki úr Vestmannaeyjum og Vestmannaeyjabær sem styrkti ÍBV um heilar tuttugu milljónir króna.

„Þessir styrkir komu okkur fyrir horn í fyrra og við náðum rétt svo að lifa þetta af. Það óskuðu einhverjir í fyrra eftir því að flytja miðana sína í staðinn fyrir endurgreiðslu svo félagið gat flotið áfram á þeim aurum,“ segir Hörður.

Bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, Íris Róbertsdóttir, segir ekki hafa verið byrjað að ræða hvort bærinn styrki félagið aftur í ár. 

„Ríkið kom ekkert inn í þetta í fyrra og mér finnst eðlilegt að félagið taki það samtal við ríkið enda allt aðrar aðstæður en voru þá. En eðlilega hefur þetta gríðarlega mikil áhrif ef það verður engin Þjóðhátíð,“ segir Íris.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×