Vatnsfjörður er friðlýstur en meðal valkosta sem Vegagerðin kynnti í tengslum við endurbætur Vestfjarðavegar um Dynjandisheiði er að þvera fjörðinn á móts við Hótel Flókalund. Sagði Vegagerðin að með aukinni umferð og þungaflutningum stefndi í að ástandið fyrir botni fjarðarins yrði óviðunandi. Þverun fjarðarins myndi skapa ferðamönnum friðsælt umhverfi til útivistar í fjarðarbotninum.

Umhverfisstofum, Skipulagsstofnun og Breiðafjarðarnefnd hafa hins vegar lýst andstöðu við þverun, telja hana ekki samrýmast friðlýsingu Vatnsfjarðar og spilla ásýnd hans. Þá hefur sveitarfélagið Vesturbyggð einnig lagst gegn þverun.
Ætla mætti að þar með væri hugmyndin dauð. Nei, aldeilis ekki, að mati Jónasar Guðmundssonar, forsvarsmanns Samgöngufélagsins, sem berst nú fyrir því að þverun Vatnsfjarðar verði sett inn á aðalskipulag Vesturbyggðar, en fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2.
Félagið lét gera sérstakt myndband af því hvernig vegur þvert yfir Vatnsfjörð kæmi til með að líta út og efndi síðan til netkönnunar um málið. Spurt var hversu hlynntir eða andvígir menn væru hugmyndum um þverun fjarðarins.

398 manns svöruðu og voru 55 prósent búsett á Vestfjörðum en 45 prósent utan Vestfjarða. Á kvarðanum núll til sex, þar sem talan sex táknar þá sem eru mjög hlynntir, talan þrír þá sem segja hvorki né, og talan núll þá sem eru mjög andvígir, fékk tillagan einkunnina 4,4. Segir Jónas könnunina sýna að þverun njóti góðs fylgis allra hópa.
„Með þverun fæst um 3,5 kílómetra stytting, akleiðin verður tiltölulega bein, greið og alveg hindrunarlaus og ætti ekki að skapa hættu fyrir gangandi vegfarendur. Af styttingunni hlýst umtalsverður samfélagslegur ábati með skemmri aksturstíma (3 mínútur miðað við 90 km/klst meðalhraða), styttri vegalengdum og þar af leiðandi minna sliti á vegum og ökutækjum sem þessu nemur, minni mengun og umtalsvert auknu umferðaröryggi,“ segir Jónas í athugasemdum sem hann hefur sent inn við aðalskipulagstillögu Vesturbyggðar fyrir hönd Samgöngufélagsins.
„Er það mat undirritaðs að stefnt gæti nánast í „slys” ef ekki verður hugað rækilega að þverun Vatnsfjarðar í stað þess að „troða” honum þá leið sem stefnir í að óbreyttu,“ segir Jónas.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: