Innlent

Hvetur stjórnvöld til að taka bara slaginn við veiruna

Snorri Másson skrifar
Finni á Prikinu vill ekki þurfa að loka öllum stöðunum sínum aftur.
Finni á Prikinu vill ekki þurfa að loka öllum stöðunum sínum aftur. Facebook

Guðfinnur Karlsson, einn allra umsvifamesti veitingamaður í Reykjavík, hvetur stjórnvöld til þess að finna leið til þess að lifa með veirunni í þeirri bylgju Covid-19 sem nú virðist vera að taka sig upp.

„Í þetta skiptið skulum við frekar styrkja heilbrigðiskerfið og setja peninga og finna leið til þess að lifa með þessu og taka slaginn,“ skrifar Guðfinnur á Facebook. Til hans er jafnan vísað sem Finna á Prikinu, en hann hefur lengi átt og rekið þann stað. 

Sömuleiðis er Finni meðal annars ábyrgur fyrir Húrra, Bravó og Hótel Borg.

Sóttvarnalæknir hefur gefið það upp í fjölmiðlum í dag að hann íhugi að leggja til sóttvarnatakmarkanir innanlands í ljósi verulegs fjölda smita undanfarna daga, þrátt fyrir bólusetningar.

Finni leggur til að farin verði önnur leið, enda sé ljóst að hin muni hafa verri afleiðingar.

„Staðan er sú að það munu þúsundir missa vinnuna og fullt af fyrirtækjum fara á hausinn ef það að loka öllu verður eina lausnin okkar í þessu. Ég býð mig allavega fram að borga slatta meira í þann sjóð til þess að styrkja og berjast og vita þá frekar að að mitt fólk heldur vinnunni,“ skrifar Finni, sem er með tugi starfsmanna á launaskrá.

56 greindust með veiruna innanlands í gær. Ekki hafa fleiri greinst með veiruna síðan í október í fyrra. Af þeim sem greindust voru 43 fullbólusettir, tveir hálfbólusettir og 38 utan sóttkvíar. 

Yfir fimm hundruð eru í sóttkví og 223 í einangrun. Smit hafa komið upp víða; starfsmaður á bráðamóttöku Landspítala greindist með kórónuveiruna í gær og smit að minnsta kosti tveggja má rekja til listahátíðarinnar Lunga á Seyðisfirði um helgina.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×