Innlent

Starfsmaður á Jómfrúnni greindist með smit

Eiður Þór Árnason skrifar
Jómfrúin hefur verið Lækjargötu í 25 ár.
Jómfrúin hefur verið Lækjargötu í 25 ár. Vísir/vilhelm

Starfsmaður Jómfrúarinnar greindist með kórónuveirusmit í gær og voru 24 starfsmenn veitingastaðsins sendir í skimun vegna smitsins. Þeir hafa allir verið bólusettir líkt og sá smitaði sem mætti síðast í vinnuna á mánudag. Einn starfsmaður hefur verið sendur í sóttkví.

Ekki er talið að gestir hafi verið útsettir fyrir smiti og því hafa viðskiptavinir ekki verið sendir í skimun eða sóttkví. Þetta segir Jakob Jak­obs­son, eig­andi og fram­kvæmda­stjóri Jómfrúarinnar, í samtali við Vísi en Mbl.is greindi fyrst frá málinu. Von er á niðurstöðum úr skimun starfsmanna síðar í dag.

Jakob Jakobsson tók alfarið við rekstrinum af föður sínum og alnafna árið 2015.Vísir/vilhelm

Jakob segir að veitingastaðurinn verði áfram opinn og að smitið hafi lítil áhrif á starfsemina. Ekki hefur borið á einkennum hjá starfsmönnum. 

„Aðalmálið er bara að fólk er bólusett svo þetta virðist ekki hafa nein teljandi áhrif en auðvitað er allur varinn góður og við fylgjum tilmælum rakningateymisins í hvívetna.“

Ekki hefur tekist að rekja smitið en starfsmaðurinn hefur ekki verið erlendis, að sögn Jakobs.

Sjö einstaklingar greindust með Covid-19 innanlands í gær og tíu á miðvikudag. Voru þeir allir bólusettir. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×