Lífið

Sjokk fyrir alla að bólu­settur hafi smitast

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Ásthildur Bára Jensdóttir er rekstrarstjóri Bankastræti Club.
Ásthildur Bára Jensdóttir er rekstrarstjóri Bankastræti Club. Aðsend

Rekstrarstjóri Bankastræti Club, þar sem upp kom smit hjá starfsmanni sem var á vakt á föstudags- og laugardagskvöld, segir það hafa verið mikið sjokk að bólusettur starfsmaður hafi smitast. Hún telur ekki að smitið muni hafa áhrif á rekstur staðarins en hann verður opinn um næstu helgi.

„Þetta hefur örugglega verið sjokk fyrir flesta á landinu þar sem við vorum ekki að reikna með því að bólusettir myndu smitast,“ segir Ásthildur Bára Jensdóttir, rekstrarstjóri Bankastræti Club.

Hún segir að í kjölfar smitsins hafi rekstraraðilar ráðfært sig við Almannavarnir og farið eftir öllum ráðleggingum.

„Í kjölfar smitsins fór fram umfangsmikil sótthreinsun á öllum helstu snertiflötum á staðnum og þeir starfsmenn sem voru í nánum samskipum við umræddan starfsmann voru sendir í sóttkví. Við höfum fylgt öllum ráðleggingum frá sóttvarnateyminu og næstu skref eru að halda okkar striki með góðan hóp af starfsfólki sem kemur til með að starfa með okkur og er búið að fara í skimun og fá neikvætt úr sínum prófum eða voru ekki viðstödd þessa helgi,“ segir Ásthildur.

Sjá einnig: Sá smitaði er starfsmaður á Bankastræti Club

Allir starfsmenn Bankastrætis voru sendir í skimun, líka þeir sem ekki voru að vinna um síðustu helgi.

„Fjórir starfsmenn eru enn í sóttkví en hafa fengið neikvætt úr covid-sýnatöku, auk starfsmannsins sem reyndist smitaður,“ segir Ásthildur.

„Þetta hefði getað komið fyrir hvern sem er, hvort sem við erum nýbúin að opna eða ekki.“

Hún segist ekki halda að smitið muni hafa áhrif á reksturinn.

„Ég held ekki, fólk ætti að vita það að þetta hefði getað komið fyrir hvern sem er, hvar sem er. Við erum þá bara frekar búin að læra af þessu mjög snemma. Við þurfum öll að hafa aðgát þó við séum bólusett.“


Tengdar fréttir

Sá smitaði er starfs­maður á Banka­stræti Club

Kórónuveirusmitið sem greindist í tengslum við skemmtistaðinn Bankastræti Club í fyrradag kom upp hjá starfsmanni staðarins, sem var á staðnum á föstudags- og laugardagskvöld.

Smit rakið til Bankastræti Club

Annað tveggja Covid-smita sem greindust utan sóttkvíar í gær er rekið til skemmtanalífsins, meðal annars til skemmtistaðarins Bankastræti Club.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.