Fótbolti

Vissi ekki að hann hafði tryggt Ítölum titilinn þegar hann varði frá Saka

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gianluigi Donnarumma í þann mund sem hann áttaði sig á því Ítalir væru orðnir Evrópumeistarar.
Gianluigi Donnarumma í þann mund sem hann áttaði sig á því Ítalir væru orðnir Evrópumeistarar. getty/Nick Potts

Athygli vakti að Gianluigi Donnarumma fagnaði ekki strax eftir að hann tryggði Ítalíu Evrópumeistaratitilinn með því að verja vítaspyrnu Bukayos Saka í leiknum gegn Englandi. Ástæðan er nokkuð skondin.

Donnarumma varði tvö víti í vítakeppninni í úrslitaleik EM, fyrst frá Jadon Sancho og svo frá Saka. Hann var merkilega rólegur eftir að hafa varið vítið frá Saka og viðbrögð hans voru svo sannarlega ekki í samræmi við tilefnið.

Ástæðan fyrir því var að Donnarumma vissi hreinlega ekki að Ítalir væru búnir að vinna vítakeppnina og þar með orðnir Evrópumeistarar.

„Ég fagnaði ekki því ég vissi ekki að við værum búnir að vinna,“ sagði Donnarumma er hann var spurður út í viðbrögð sín við vörslunni frá Saka.

„Ég sá liðsfélagana hlaupa í áttina til mín og þá rann upp fyrir mér að við hefðum unnið,“ bætti markvörðurinn við.

Donnarumma lék mjög vel á sínu fyrsta stórmóti með ítalska liðinu. Hann hélt þrisvar sinnum hreinu á EM, var valinn í úrvalslið mótsins og besti leikmaður þess.

Donnarumma átti stóran þátt í að Ítalir komust í úrslitaleikinn en hann varði víti frá Álvaro Morata í vítakeppninni gegn Spánverjum í undanúrslitunum. Andstæðingar Ítalíu skoruðu aðeins úr fjórum af þeim níu vítaspyrnum sem þeir tóku gegn Donnarumma í undanúrslita- og úrslitaleiknum á EM.

Hinn 22 ára Donnarumma er án félags eftir að samningur hans við AC Milan rann út. Fastlega er búist við því að hann verði kynntur sem nýr leikmaður Paris Saint-Germain á næstu dögum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×