Fótbolti

Grealish svarar Keane fullum hálsi: „Ég sagðist vilja taka víti!!!!“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jack Grealish vildi taka víti í vítakeppninni en var ekki valinn til verksins.
Jack Grealish vildi taka víti í vítakeppninni en var ekki valinn til verksins. getty/Nick Potts

Jack Grealish segir Roy Keane fara með staðlausa stafi og segist hafa viljað taka víti í vítakeppninni í úrslitaleik EM í gær.

Eftir leikinn gagnrýndi Keane reyndari leikmenn enska liðsins og sagði að þeir hefðu átt að taka fimmtu og síðustu spyrnuna í vítakeppninni frekar en hinn nítján ára Bukayo Saka. Gianluigi Donnarumma, markvörður Ítalíu, varði spyrnu hans og tryggði ítalska liðinu sinn fyrsta Evrópumeistaratitil í 53 ár.

„Ef þú ert [Raheem] Sterling eða Grealish geturðu ekki setið hjá og látið ungan strák taka víti á undan þér. Þú getur það ekki,“ sagði Keane á iTV eftir leikinn í gær.

„Þú getur ekki látið látið feiminn nítján ára strák taka víti á undan þér. Þeir búa yfir mun meiri reynslu, Sterling hefur unnið titla. Þeir áttu að fara fram fyrir unga strákinn.“

Grealish setti inn færslu á Twitter í morgun þar sem hann segir af og frá að hann hafi skorast undan því að fara á vítapunktinn.

„Ég sagðist vilja taka víti!!!!“ skrifaði Grealish á Twitter og var greinilega ekki skemmt. 

„Stjórinn hefur tekið svo margar réttar ákvarðanir gegnum mótið og gerði það í kvöld. En ég læt fólk ekki segja að ég hafi ekki viljað taka víti þegar ég sagðist vilja gera það.“

Grealish kom inn á sem varamaður á níundu mínútu framlengingarinnar í gær en tókst ekki að setja mark sitt á leikinn eins og hann gerði til dæmis gegn Þýskalandi í sextán liða úrslitunum.

Hinn 25 ára Grealish lék sinn tólfta landsleik í gær. Hann er fyrirliði Aston Villa en líklegt þykir að hann yfirgefi félagið í sumar. Englandsmeistarar Manchester City hafa áhuga á Grealish og ku vera tilbúnir að borga metverð fyrir hann.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×