Fótbolti

Elísabet drottning sendi kveðju til landsliðsins

Valur Páll Eiríksson skrifar
Elísabet Bretadrottning. Hún hefur dregið úr skyldum sínum á undanförnum árum.
Elísabet Bretadrottning. Hún hefur dregið úr skyldum sínum á undanförnum árum. EPA/FACUNDO ARRIZABALAGA

Elísabet önnur, Bretlandsdrottning, sendi hamingjuóskir og baráttukveðjur til Gareth Southgate, landsliðsþjálfara Englands, og enska liðsins í aðdraganda úrslitaleiks liðsins á EM við Ítalíu á Wembley annað kvöld.

Elísabet er 95 ára gömul og hefur setið á drottningarstóli frá árinu 1952. Það var því hún sem afhenti Bobby Moore, þáverandi fyrirliða Englands, heimsmeistarabikarinn þegar England varð heimsmeistari á Wembley árið 1966. England getur nú unnið sinn fyrsta titil frá þeim tíma, aftur á Wembley.

„Fyrir 55 árum var ég svo lánsöm að afhenda Bobby Moore heimsmeistaratitilinn og sá hversu mikla þýðingu það hafði fyrir leikmenn, þjálfara og annað starfsólk að komast í úrslitin og vinna á stórmóti,“

„Ég vil senda mínar hamingjuóskir og frá fjölskyldu minni til ykkar allra fyrir að komast í úrslitin á Evrópumeistaramótinu, og senda hlýja strauma fyrir morgundaginn í þeirri von að ykkar verði ekki aðeins minnst í sögunni fyrir ykkar árangur, heldur einnig andann, festuna og stoltið sem hefur einkennt ykkar framgöngu.“ segir í bréfi Elísabetar til Southgate sem birt var á Twitter-síðu enska landsliðsins í dag.

Úrslitaleikur Ítalíu og Englands hefst klukkan 19:00 á Wembley í Lundúnum annað kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 EM og Stöð 2 Sport 2. Upphitun fyrir leik hefst klukkan 18:10.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×