Fótbolti

Glódís Perla mögulega á leið til Bayern München

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir gæti verið á leið til Þýskalandsmeistara FC Bayern.
Glódís Perla Viggósdóttir gæti verið á leið til Þýskalandsmeistara FC Bayern.

Glódís Perla Viggósdóttir hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Rosengård í sænsku úrvalsdeildinni. Glódís var verðlaunuð fyrir góðan árangur eftir 5-0 sigur liðsins gegn Växjö í dag.

Ásamt Glódísi eru þær Anna Anvegård og Natalie Björn á förum frá sænska liðinu. Glódís kom til Rosengård árið 2017 og varð sænskur meistari með liðinu árið 2019.

Marcus Bühlund, fréttamaður hjá Eurosport, segir að Þýskalandsmeistarar Bayern München séu líklegur áfangastaður Glódísar, en þar myndi Karólína Lea Vilhjálmsdóttir taka vel á móti samherja sínum úr íslenska landsliðinu.

Glódís er 26 ára og á að baki 93 landsleiki þar sem hún hefur skorað sex mörk. Hún lék með Stjörnunni og HK/Víkingi á Íslandi áður en hún hélt til Svíþjóðar árið 2015 þar sem hún lék með Eskilstuna áður en hún gekk til liðs við Rosengård.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.