Erlent

Enginn komst lífs af í flugslysinu á Kamtsjatka

Kjartan Kjartansson skrifar
Antonov An-26 með sömu einkennisstafi og vélin sem hrapaði á Elizovo-flugvelli við Petropavlovsk á Kamtsjatka í nóvember.
Antonov An-26 með sömu einkennisstafi og vélin sem hrapaði á Elizovo-flugvelli við Petropavlovsk á Kamtsjatka í nóvember. AP/Marina Lystseva

Allir fórust þegar farþegaflugvél hrapaði á Kamtsjatkaskaga í Austur-Rússlandi, að sögn björgunarsveita þar. Um borð voru tuttugu og tveir farþegar auk sex manna áhafnar.

Flugvélin var tæplega fjörutíu ára gömul af gerðinni Antonov An-26 í eigu fyrirtækisins Kamchatka Aviation Enterprise. Hún var á leiðinni frá Petropavlovsk, höfuðborg Kamtsjatkahéraðs, til þorpsins Palana á norðanverðum skaganum þegar hún missti samband við flugturn. Þá var hún aðeins um tíu kílómetrum frá flugvellinum í Palana. 

Talið er að vélin hafi flugið á klettavegg. Skýjað var á svæðinu þegar vélin brotlenti, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Flugmálayfirvöld staðfestu að flakið væri fundið. Þyrlur og björgunarlið á jörðu niðri voru send til leitar. Olga Mokhireva, bæjarstjóri Palana, var um borð í flugvélinni að sögn TASS-fréttastofunnar rússnesku. 

Vladímír Solodov, ríkisstjóri Kamtsjatka, sagði Interfax-fréttastofunni, að skrokkur flugvélarinnar hefði fundist á landi nærri ströndinni um fimm kílómetrum frá flugbrautinni en brak úr henni hafi drefist yfir Okhotsk-haf.

Þrátt fyrir að vélin hafi verið í notkun frá 1982 fullyrti Alexei Khabarov, forstjóri flugfélagsins, að hún hefði verið í góðu ástandi. Sakamálarannsókn er hafin á slysinu, að sögn AP-fréttastofunnar.

Tíu manns fórust þegar vél af svipaðri gerð í eigu sama flugfélags hrapaði í skóglendi á Kamtsjatkaskaga árið 2012. Sú vél var á sömu flugleið og sú sem hrapaði í morgun. Rannsókn leiddi í ljós að báðir flugmennirnir voru ölvaðir.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.