Innlent

„Ég mun bregðast við þessu af fullum þunga“

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Ingó Veðurguð spilar á Hrafnistu í samkomubanni vegna Covid-19
Ingó Veðurguð spilar á Hrafnistu í samkomubanni vegna Covid-19 vilhelm gunnarsson

Ingólfur Þórarinsson, betur þekktur sem Ingó Veðurguð, mun bregðast við ákvörðun þjóðhátíðarnefndar af fullum þunga og er þegar farinn að leita réttar síns.

Þjóðhátíðarnefnd ÍBV hefur tekið ákvörðun um að Ingó muni hvorki koma fram á Þjóðhátíð í ár né annast brekkusönginn en til stóð að hann flytti þjóðhátíðarlagið frá því í fyrra á laugardagskvöldi hátíðarinnar. 

„Þeir létu mig vita í gær að þeir ætluðu að afbóka mig á hátíðina,“ segir Ingólfur Þórarinsson í samtali við fréttastofu.

Ingó segist afar ósáttur við ákvörðunina og er þegar farin að leita réttar síns.

„Ég er ósáttur við það og ég mun bregðast við þessu af fullum þunga.“

Hefur áhyggjur af sínum nánustu

Undanfarna daga hafa gengið sögur um meint kynferðisofbeldi og áreitni af hálfu Ingó á samfélagsmiðlinum TikTok og víðar. Sögurnar birtust á TikTok reikningi hópsins Öfga en þær eru allar nafnlausar. Þar segir að meintir þolendur skuldi engum að stíga fram undir nafni.

Ingó sagði í samtali við fréttastofu á föstudag að ekkert sé til í frásögnunum og sagðist upplifa umræðuna sem árás.

„Ég er kominn með nokkra lögfræðinga í málið.“ 

„Þetta er farið að hafa áhrif atvinnulega og aðallega er þetta leiðinlegt fyrir fólkið sem þekkir mann, að þurfa að standa í þessu. Þetta er orðið svo gróft núna,“ sagði Ingó og sagðist hafa mestar áhyggjur af sínum nánustu í tengslum við umræðuna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×