Fótbolti

Samningslaus Messi afgreiddi Ekvador

Anton Ingi Leifsson skrifar
Messi fagnar aukaspyrnumarki sínu í nótt.
Messi fagnar aukaspyrnumarki sínu í nótt. PA-EFE/Fernando Bizerra Jr

Argentina er komið í undanúrslit í Copa America, Suður Ameríkukeppninni, eftir 3-0 sigur á Ekvador í átta liða úrslitunum í nótt.

Lionel Messi er samningslaus eftir að samningur hans við Barcelona rann út á dögunum en reiknað er með að hann skrifi þó undir nýjan samning á næstu dögum.

Hann lét það ekki á sig fá í leiknum í nótt en hann lagði upp fyrsta markið fyrir Rodrigo De Paul á 40. mínútu og 1-0 stóðu leikar í hálfleik.

Messi lagði einnig upp annað mark leiksins en það var fyrir framherja Ítalíumeistarana, Inter Milan, er Lautaro Martinez skoraði.

Messi skoraði svo sjálfur á þriðju mínútu uppbótartíma með marki beint úr aukaspyrnu en mínútu áður höfðu Ekvador misst Piero Hincapie af velli með rautt spjald.

Lokatölur 3-0 en Argentína mætir Kólumbíu í undanúrslitunum á miðvikudag. Í hinum undanúrslitunum mætast Brasilía og Perú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×