Innlent

Anna­samur dagur hjá lög­reglunni á höfuð­borgar­svæðinu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Mikið annríki var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í dag. 
Mikið annríki var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í dag.  Vísir/Vilhelm

Mikið annríki hefur verið hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í dag. Frá því á hádegi í dag hafa lögreglumenn staðið í ströngu við að koma fólki í annarlegu ástandi til aðstoðar. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Klukkan hálf tólf í morgun var tilkynnt um tvo menn í annarlegu ástandi í verslun í miðbænum. Korteri síðar barst önnur slík tilkynning um mann í annarlegu ástandi í verslun í austurborg Reykjavíkur. Rétt eftir klukkan tólf barst önnur slík tilkynning en sá var til ama í verslun í austurhluta borgarinnar.

Tilkynnt var um vinnuslys í Hlíðunum rétt eftir klukkan tólf, og svo stuttu síðar barst aðstoðarbeiðni vegna manns í annarlegu ástandi sem var til ama í verslun í miðbænum. Tilkynnt var um þjófnað í verslun í miðbænum rétt eftir klukkan eitt og tilkynnt var um aðila í mjög annarlegu ástandi í bílastæðahúsi í miðbænum rétt eftir tvö.

Um korter í þrjú var tilkynnt um mann í annarlegu ástandi en sá var að kasta grjóti í hús í miðbænum. Óskað var eftir aðstoð lögreglustuttu síðar í austurhluta borgarinnar þar sem maður neitaði að yfirgefa bifreið sem hann var farþegi í. Þá var óskað eftir aðstoð lögreglu rétt eftir það í miðbæ Reykjavíkur við að vísa óvelkomnum aðilum í annarlegu ástandi út úr stigagangi sameignar.

Um klukkan hálf fjögur var tilkynnt um mann í annarlegu ástandi í miðbænum með buxurnar á hælunum. Þá var tilkynnt um konu í annarlegu ástandi klukkan fjögur en hún var til vandræða inni á matsölustað í miðbænum. Þá var tilkynnt um par í mjög annarlegu ástandi í miðbænum. Tilkynnt var um líkamsárás á stofnun í miðbænum þar sem maður í annarlegu ástandi réðst á starfsmann.

Lögreglumenn stöðvuðu ölvaðan ökumann í Garðabæ rétt fyrir klukkan hálf tólf á hádegi. Hann var handtekinn og fluttur á lögreglustöð í sýnatöku. Þá var tilkynnt um slys í Kópavogi rétt eftir klukkan tvö en keyrt hafði verið á reiðhjólamann. Þá var tilkynnt um innbrot í geymslur í heimahúsi í Garðabæ á þriðja tímanum.

Lögregla var kölluð til rétt eftir klukkan tvö í Grafarholti en maður í annarlegu ástandi lá ber að ofan á grasbala. Lögregla aðstoðaði hann við að komast heim til sín. Þá var tilkynnt um umferðaróhapp í austurhluta borgarinnar klukkan þrjú en annar ökumaðurinn reyndist ölvaður undir stýri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×